Menningarhús á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 14:39:13 (1282)

2001-11-07 14:39:13# 127. lþ. 24.3 fundur 96. mál: #A menningarhús á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[14:39]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Það er alveg óþarfi af hv. þm. að halda að ég taki það illa upp þó að hann taki til máls. En ég svara fyrirspurnum hans á þann hátt sem mér sjálfum hentar án tillits til þess hvort honum líkar það vel eða illa.

Varðandi þetta mál, þá hafa farið fram miklar umræður um það síðan við kynntum það í ársbyrjun 1999 og rætt hefur verið við forráðamenn á öllum þessum stöðum sem við nefndum. En í ljós hefur komið að t.d. á Ísafirði er ekki áhugi á að ráðast í smíði eins húss heldur er þess óskað að ríkið standi að því með heimamönnum að ljúka við endurgerð Edinborgarhússins og lagt hefur verið fé til þess, kosta tónlistarsal við tónlistarskólann og gera við gamla sjúkrahúsið, enda verði það safnahús. Þetta hefur verið rætt. Síðan hafa Vestfirðingar komið með aðrar hugmyndir einnig. Ég hef lagt áherslu á það við Vestfirðinga að við náum góðu samkomulagi um þetta eins og við höfum gert á Austfjörðum þar sem liggja fyrir mótaðar hugmyndir.

Í Skagafirði hafa menn ekki talið rétt að ráðast í smíði á menningarhúsi heldur viljað eiga samstarf um menningarmál við ríkisvaldið á öðrum forsendum.

Varðandi Akureyri sem hv. þm. gerði að sérstöku umtalsefni, þá er það stærsta verkefnið sem nú er í vinnslu og unnið er að því í samvinnu við menntmrn. að útfæra þær hugmyndir sem hafa verið kynntar og ekki er unnt að taka afstöðu til einstakra þátta í því fyrr en meiri vinna hefur farið fram. Ég veit að Akureyringar hafa m.a. samið við sérfróða aðila í Bandaríkjunum til þess að aðstoða sig því að svona stórvirki og slík mannvirkjagerð þarf að vera vel undirbúin og ástæðulaust að gera því skóna að þótt menn undirbúi verk vel, þá sé verið að ýta þeim til hliðar. Og raunar er krafan sú eins og við vitum um þátttöku hins opinbera í opinberum framkvæmdum á þann veg að allar áætlanir þurfa að vera mjög vel unnar og það er nauðsynlegt í þessu tilliti eins og öðru.

Á Austurlandi hafa mál þróast á þann veg að í stað eins menningarhúss hafa komið fram óskir um aðild að fleiri en einu húsi. Í samningi um samstarf ríkis og 16 sveitarfélaga á Austurlandi um menningarmál sem ritað var undir 14. maí sl. á Seyðisfirði og gildir til ársloka 2004 er kveðið á um að á samningstímanum verði unnið að þátttöku ríkissjóðs í uppbyggingu fjögurra menningarmiðstöðva á Austurlandi í samræmi við viljayfirlýsingu sem fylgir samningnum. Þar er rætt um kirkju og menningarmiðstöð í Fjarðarbyggð, menningarmiðstöðina Skaftfell á Seyðisfirði og menningarmiðstöð á Hornafirði, einnig menningarmiðstöð á Egilsstöðum eða Austurhéraði. Ég skipaði í sumar fulltrúa af minni hálfu til að vinna með heimamönnum að því verkefni þannig að á Austurlandi eru þessar hugmyndir vel mótaðar og liggja fyrir.

Í Vestmannaeyjum hafa komið fram hugmyndir um menningarhús í nýja hrauninu. Þessar hugmyndir liggja allar fyrir og unnið hefur verið að þessum verkefnum.

Ég sé ekki annað en að tillögurnar og málin hafi verið að skýrast. Við höfum sérstakan menningarsamning við Akureyri og innan þess samnings og samkvæmt ákvæðum í honum er verið að vinna að þessu verkefni. Við höfum einnig gert sérstakan menningarsamning við 16 sveitarfélög á Austurlandi og á grundvelli hans eru við að vinna að þessu. Við höfum hins vegar ekki, og ég hef lagt á það áherslu að gagnvart Vestfirðingunum sé nauðsynlegt að stíga einnig það skref að mínu mati að gera samning með sambærilegum hætti og við höfum samið við Austfirðingana og þá mundu menn taka afstöðu til þess endanlega hvernig yrði staðið að uppbyggingu á menningarhúsum þar.

Ég lagði á það áherslu þegar þetta mál var kynnt að menn ættu ekki að einskorða sig við orðið ,,hús`` í þessu heldur væri það menningarlegt samstarf á þeim forsendum sem menn teldu eðlilegt á hverjum stað miðað við aðstæður og það er það sem hefur verið gert. Ég held að allir þeir sem komið hafa að þessu komi að því með jákvæðu hugarfari og jákvæðri afstöðu og ég held að við séum þarna að leggja grunn að mjög merku samstarfi ríkisins og sveitarfélaganna sem varð til á grundvelli þeirrar yfirlýsingar sem við gáfum hátíðlega í ársbyrjun 1999 og er fylgt markvisst eftir síðan.

Ég held að það sé algerlega ástæðulaust af hv. þm. þótt hann sé oft úrillur þegar hann ræðir um menningarmálin við mig að draga upp þá neikvæðu mynd af þessu sem hann er að gera í máli sínu og láta að því liggja að það sé ekkert verið að aðhafast á þessu sviði.