Menningarhús á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 14:56:22 (1291)

2001-11-07 14:56:22# 127. lþ. 24.3 fundur 96. mál: #A menningarhús á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[14:56]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef aldrei litið á þetta sem kosningaloforð, frekar sem úrvinnsluverkefni. Það hefur verið unnið að þessu jafnt og þétt og markvisst. Það er ekki hægt að semja fyrr en menn eru komnir að niðurstöðu um hvað þeir ætla að semja um og að því eru menn að vinna. Að tengja þetta við tónlistarhúsið í Reykjavík er algerlega óþarfi af hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur. Þetta er viðfangsefni sem við erum að vinna að með sveitarfélögunum eftir þeim óskum sem fram hafa komið hjá þeim. Ef menn minnast umræðnanna hér vorið 1999 eftir að þessi yfirlýsing var gefin þá var það alveg ljóst eftir að hún var gefin hvað fjaðrafokið varð mikið víða að það var nauðsynlegt að menn tækju sér tíma og ræddu málið og færu yfir það með sveitarfélögunum og áttuðu sig betur á því hvað það væri í raun sem mennirnir voru að segja sem brugðust við af mestri hörku, má segja, oft og tíðum þegar þetta mál var til umræðu á þeim tíma. Að leggja málið upp eins og það hafi verið eitthvert sérstakt kosningamál ríkisstjórnarinnar fyrir kosningarnar síðustu er algerlega út í bláinn. Málið var ekki rætt á þeim forsendum einu sinni. Það gerðu þvert á móti, heyrðist mér, stjórnarandstæðingarnir sem töpuðu nú í kosningunum. (Gripið fram í.) Þeir hafa þá tapað á málinu því að það voru þeir sem voru að flagga þessu mest og það voru þeir sem voru að gera mest úr því að þarna væri um einhverja blekkingu að ræða og það voru þeir sem héldu þessu máli fram. Við fórum strax að vinna úr því eins og við höfum gert. Ég hef haft þá ánægju að hafa fylgt því eftir þann tíma sem síðan er liðinn. Ég sé að við erum alltaf að nálgast markmiðið betur og betur og með skýrari hætti hvað sem hv. stjórnarandstöðu líður og sérstaklega formanni Vinstri grænna sem sér aldrei neitt nema svartnættið þegar hann er að ræða um störf ríkisstjórnarinnar jafnt í þessu máli sem öðrum. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: Ekki einu sinni grænt.)