Einkaframtak í heilbrigðisþjónustu

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 15:40:05 (1308)

2001-11-07 15:40:05# 127. lþ. 24.7 fundur 221. mál: #A einkaframtak í heilbrigðisþjónustu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[15:40]

Fyrirspyrjandi (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Á undanförnum vikum og mánuðum hefur þingmönnum sem m.a. nú nýlega hafa verið í kjördæmum orðið ljóst að fjölgað hefur á biðlistum eftir heilbrigðisþjónustu. Síðast í gær var dreift hér á hinu háa Alþingi skriflegu svari hæstv. heilbrrh. við fyrirspurn tveggja hv. þm. um þessi efni þar sem kemur fram að biðlistar í hinum ýmsu greinum hafa lengst verulega. Fleiri einstaklingar bíða aðgerða eða úrlausnar og biðtími virðist lengjast, a.m.k. í þó nokkrum greinum þar sem verulegur hluti af heilbrigðisþjónustunni er unninn af einkaaðilum eða aðilum sem starfa hjá einkareknum fyrirtækjum sem þjónustan er keypt af.

Þá lýsti forveri hæstv. ráðherra í umræðum hér á þingi fyrir nokkrum mánuðum því yfir að hann teldi að heilbrigðisfólk ætti að vinna á opinberum stofnunum. Við hljótum hins vegar að velta fyrir okkur öllum leiðum til þess að vinna á þessum biðlistum. En vegna orða fyrrv. hæstv. ráðherra vil ég óska þess að hæstv. heilbrrh. svari fyrirspurn sem legið hefur frammi á þskj. 246 og er svohljóðandi:

,,1. Sýna vísindalegar niðurstöður fram á að einkarekin sjúkrahús eða læknastofur veiti almennt lakari þjónustu eða skili almennt lakari verkum en sjúkrahús eða heilsugæslustöðvar opinberra aðila?

2. Sýna fjárhagslegar niðurstöður fram á að heildarkostnaður við tiltekin verkefni heilbrigðisþjónustu sé almennt hærri í einkareknum sjúkrahúsum en opinberum þegar tekið hefur verið tillit til langtímakostnaðar við fjármögnun fasteigna, búnaðar og tækjakosts sem til þarf?``