Einkaframtak í heilbrigðisþjónustu

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 15:48:06 (1311)

2001-11-07 15:48:06# 127. lþ. 24.7 fundur 221. mál: #A einkaframtak í heilbrigðisþjónustu# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[15:48]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hæstv. heilbrrh. Við megum ekki vera með tvöfalt kerfi hér og megum aldrei mismuna fólki í aðgangi að þjónustunni eftir efnahag. Það má aldrei verða.

Það er rétt sem kom fram áðan. Það eru ekki einkarekin sjúkrahús á Íslandi. Aftur á móti hafa sjálfstætt starfandi læknar rekið læknastofur sínar. Ég hef margoft tekið það fram hér, herra forseti, að það er mjög mikilvægt að þeir einkaaðilar sem taka að sér verk úti í bæ, þá erum við að tala um ferliverkin, séu ekki að taka léttustu verkin og dýru og erfiðu verkin verði eftir á sjúkrahúsunum.

Við erum með háskólasjúkrahús og það er mjög mikilvægt að háskólasjúkrahús sé með fjölbreytt verk á sinni hendi til þess að þeir sem koma þangað til að læra til læknis fái reynslu í sem fjölbreytilegustum verkum. Það má aldrei verða til þess að úti í bæ sé verið að mismuna fólki eftir efnahag, t.d. færa hina efnuðu fram fyrir á biðlistum.