Reglugerð skv. 18. gr. a læknalaga

Miðvikudaginn 07. nóvember 2001, kl. 16:00:20 (1317)

2001-11-07 16:00:20# 127. lþ. 24.8 fundur 231. mál: #A reglugerð skv. 18. gr. a læknalaga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 24. fundur, 127. lþ.

[16:00]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Í þessari fyrirspurn er spurt um setningu reglugerðar skv. 18. gr. a læknalaga.

Grein 18. a í læknalögunum kom inn í lögin með lögum nr. 68/1998, um breytingu á læknalögum, og tók gildi 1. jan. 1999. Greinin fjallar um rannsóknar- og tilkynningarskyldu ,,Hafi meðferð heilbrigðisstarfsmanns óvæntan skaða í för með sér ...``

Óvæntur skaði er skilgreindur þannig í lögunum:

,,Óvæntur skaði er þegar árangur og afleiðingar meðferðar verða önnur en gert var ráð fyrir í upphafi.``

Í 6. mgr. 18. gr. a laganna segir:

,,Ráðherra skal setja reglugerð um viðbrögð og rannsókn mála skv. 1. mgr.``

Skömmu áður en lögin tóku gildi barst ráðuneytinu bréf þar sem bent var á að við kynningu á lagabreytingunni hafi komið fram að heilbrigðisstarfsmenn skildu hugtakið skaða þannig að það væri forsenda rannsóknar og tilkynningarskyldu að tjón hefði orðið. Talin var hætta á að þessi túlkun mundi leiða til að markmið lagabreytingarinnar, að koma á rannsóknar- og tilkynningarskyldu í heilbrigðiskerfinu sem í fælist í senn forvörn og gæðaeftirlit, næðist ekki. Því var talið æskilegt að breyta lögunum á þann veg að tvímælalaust sé að einnig skuli tilkynna mistök eða óhöpp sem ekki valda tjóni, t.d. þegar rangt lyf er gefið og ekki hlýst tjón af því.

Þegar hér var komið sögu lágu fyrir drög að frv. til laga um réttindi og skyldur heilbrigðisstétta. Gerði frv. ráð fyrir að sett yrðu heildarlög um allar heilbrigðisstéttir og sérlög, þar á meðal læknalögin, yrðu felld úr gildi. Því þótti heppilegra að gera framangreinda lagfæringu á heildarfrv. um heilbrigðisstéttir en að fara fram með sérstakt frv. af þessu tilefni. Þar sem ekki var unnt að lagfæra framangreinda hnökra á lagatextanum með reglugerð var talið rétt að bíða með setningu reglugerðar.

Vinnsla frv. um réttindi og skyldur heilbrigðisstétta hefur tekið mun lengri tíma en gert var ráð fyrir, enda er um að ræða frv. sem varðar hagsmuni allra heilbrigðisstétta. Nú er þetta frv. hins vegar nær fullbúið og er stefnt að því að leggja það fram á þessu þingi. Verði það frv. að lögum ætti að vera hægt að setja margnefnda reglugerð strax í kjölfar þess, enda liggja þegar fyrir drög að henni.

Samkvæmt upplýsingum landlæknis tilkynna heilbrigðisstofnanir og heilbrigðisstarfsmenn landlækni yfirleitt um alvarlegri mistök eða óhöpp og telur hann að þessari skyldu sé betur sinnt nú en áður.

Hins vegar skortir enn talsvert á að skýrslur vegna minni háttar mistaka og óhappa berist landlæknisembættinu reglulega og hyggst embættið gera gangskör að því að kalla inn slíkar skýrslur reglulega.