Fundur í heilbr.- og trn. með fulltrúum sjúkraliða

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 10:35:55 (1326)

2001-11-08 10:35:55# 127. lþ. 25.91 fundur 111#B fundur í heilbr.- og trn. með fulltrúum sjúkraliða# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[10:35]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir gagnrýni hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur á að sjúkraliðar hafi ekki verið kallaðir á fund heilbr.- og trn. Ósk kom 14. maí til nefndarinnar um að fá að koma og hitta nefndina. Síðan hefur verið haft samband við okkur ítrekað og ég hef ítrekað farið fram á það bæði við formanninn og varaformanninn að fá sjúkraliða á okkar fund.

Haldnir hafa verið fjórir fundir í nefndinni frá því að þing kom saman í haust og tveir hafa fallið niður. Þegar ég fékk seinna fundarboðið um að fundur félli niður í nefndinni, hafði ég samband við varaformann nefndarinnar því að formaðurinn var þá líka erlendis, en það var hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir, og spurði hana hvort ekki væri hægt að halda þennan fund og fá þá sjúkraliðana á fund nefndarinnar. En þá var það orðið of seint þannig að ekki varð af því.

Ég vil upplýsa að ekki var búið að boða sjúkraliðana á fund nefndarinnar í gærkvöldi. Aftur á móti voru þeir boðaðir í morgun. Heilbr.- og trn. mun halda aukafund á mánudaginn kemur. Ég vil fara fram á það, herra forseti, að kallað verði á sjúkraliða á þann fund. Eins og ljóst er, er staðan mjög alvarleg. 160 sjúkraliðar hafa sagt upp störfum. Verkföll munu hefjast að nýju eftir helgina, á mánudaginn, ef ekki semst þannig að ég tel fullkomlega eðlilegt að fulltrúar sjúkraliða verði kallaðir á aukafund nefndarinnar á mánudaginn og geri þar grein fyrir stöðunni. Það er búið að boða þá fimmtudaginn en ég tel enga ástæðu til þess að bíða til fimmtudags þar sem aukafundur er í nefndinni á mánudaginn kemur og fer fram á að kallað verði á sjúkraliða á þann fund.