Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 11:15:20 (1336)

2001-11-08 11:15:20# 127. lþ. 25.1 fundur 230. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (eftirlitsgjald) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[11:15]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er fjallað um frv. til laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Frv. fylgja ítarlegar skýrslur um ýmislegt sem lýtur að fjármálalífinu og eftirliti með því. Ljóst er að fjármálamarkaðurinn á Íslandi hefur aukist mjög að umsvifum á síðustu árum og það er fyrirsjáanlegt að þar muni enn verða vöxtur í framtíðinni. Ýmislegt bendir til þess að svo verði.

Eitt er að við Íslendingar höfum tekið þá ákvörðun að færa ýmsar skuldbindingar sem áður voru á hendi opinberra aðila, almannatrygginga t.d., yfir á herðar lífeyrissjóðanna sem síðan hafa fengið í sínar hendur mikla fjármuni til að fjárfesta innan lands og utan. Það er ljóst að með ráðstöfun svo mikilla fjármuna er brýnt að gott og traust eftirlit sé fyrir hendi.

Lífeyrissjóðirnir og fjárfestingar þeirra hafa verið talsvert til umræðu að undanförnu og eru gerð ágæt skil í þessari skýrslu sem fylgir frv. Þar hefur sumt verið sagt af miklu viti og annað af takmarkaðri þekkingu. Má þar minna á yfirlýsingar hæstv. landbrh. ekki alls fyrir löngu um fjárfestingar lífeyrissjóðanna erlendis. Hann sagði m.a. að löggjafinn hefði gert afdrifarík mistök þegar ákveðið var að heimila lífeyrissjóðunum að fjárfesta í útlöndum allt að 50% af eignum sínum. Leyfilegt hlutfall fyrir þessa síðustu lagabreytingu hafði verið 30% en það var fært upp í 50%, og sagði hæstv. landbrh. að þar hefði löggjafinn gert afdrifarík mistök.

Staðreyndin er hins vegar sú að lífeyrissjóðirnir hafa ekki farið með fjármuni sína úr landi sem þessu nemur. Lífeyrissjóðirnir hafa farið með undir 22%, rúmlega fimmtung, 21,6% af eignum sínum til útlanda þannig að hvergi nærri hefur reynt á það þak sem hæstv. landbrh. gat um. Hann sagði líka og vék að tilteknum lífeyrissjóðum að þeir hefðu tapað miklum fúlgum í útlöndum. Hann vék þar sérstaklega að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, sagði að sá sjóður hefði tapað mörgum milljörðum á erlendri grundu, þegar staðreyndin er sú að hann hefur ekki tapað neinu. Þegar litið er á fjárfestingarnar í heild sinni þá gáfu þær mikinn arð fyrstu árin sem þær voru til ráðstöfunar utan lands. Síðan hefur það gerst, eins og hefur gerst á hlutabréfamarkaði í heiminum öllum, að hlutabréf hafa fallið í verði á síðustu missirum og ófyrirsjáanlegt er hver þróunin verði. Auðvitað er lífeyrissjóðum mikill vandi á höndum að fara vel með þessa fjármuni og í sjálfu sér eiga þeir ekki annarra kosta völ en að dreifa áhættunni sem best innan lands og utan til þess að varðveita verðgildi þessara eigna.

Annað sem gæti leitt til þess að fjármálamarkaðurinn aukist að umsvifum er einkavæðingin. Það er verið að taka opinbera umsýslu og færa hana út á markað. Hér var haldin ráðstefna undir lok síðustu viku þar sem safnað var saman öllum helstu hægrisinnum innan hagfræðinnar og þeir prédikuðu þar ákaft skattalækkanir. Ég held að í Morgunblaðinu í morgun sé grein þar sem talað er um skattamarkaðinn. Nú er það skattamarkaðurinn, að standa sig á skattamarkaðnum. Vita menn hvað það þýðir? Það er að niðurbjóða skattana gagnvart öðrum ríkjum. Þetta er nokkuð sem OECD er að reyna að sporna gegn með því að setja almennan siðferðisþröskuld sem ríki fari ekki undir og að ríki keppi ekki hvert við annað á þessum ósiðlega grundvelli. Það sem þetta gengur út á er að reyna að tæla menn, fjármálamenn, auðmenn, til að koma til Íslands, flýja af hólmi í heimalandi sínu, hætta að borga skatta og skyldur þar og koma hingað í fjármálaparadísina og skattaskjólið Ísland. Þetta er ósiðlegt. Þetta er fullkomlega ósiðlegt, eins ósiðlegt og tilraunir íslensku ríkisstjórnarinnar í samstarfi við Verslunarráð Íslands að bjóða 5% tekjuskatt í því skyni að fá fyrirtæki til að koma til Íslands á þennan hátt.

Við höfum spurt um það á Alþingi aftur og ítrekað, munnlega og skriflega hvað þessi fjárfesting skattborgarans, tæpar 50 milljónir til að fjármagna þetta gæluverkefni Verslunarráðs Íslands, hafi gefið af sér. Ellefu fyrirtæki, vorum við upplýst um hér í skriflegu svari ekki alls fyrir löngu, hafa sótt inn í þetta skattaskjól ríkisstjórnarinnar. En það kemur að sjálfsögðu einnig fram í svarinu að sárafáir einstaklingar starfa við þetta. Þetta eru líka skúffur bara í skrifborði. Til þess er leikurinn gerður. Er þessi viðleitni reyndar til rannsóknar hjá OECD. OECD tók þessi mál upp á sínum vettvangi árið 1998 og ítrekað síðan ár eftir ár. Ráðherraráð OECD undirritaði yfirlýsingu sumarið 2000 og í kjölfar hennar voru send bréf til skattaparadísa þessa heims, hvort sem þær eru á Ermarsundi, í Karíbahafinu eða Afríku, þar sem þær voru beðnar um að hlíta einhverjum lágmarks siðferðilegum skuldbindingum sem OECD gerði tillögur um. Tvö ríki innan OECD neituðu að skrifa undir þessa yfirlýsingu. Það voru Lúxemborg og Sviss. En það er á þessum vettvangi sem sagt sem verið er að kanna íslensku ríkisstjórnina. Hún er í þessu kompaníi. Síðan er verið að bjóða hingað heim með miklum trumbuslætti hagfræðingum víðs vegar að úr heiminum til að prédika þenna boðskap.

Það var mjög góð úttekt á þessu í Morgunblaðinu á laugardaginn var. Þar var m.a. talað við kanadískan prófessor sem veitti forstöðu efnahagsstofnun í Kanada. Sú stofnun hefur gefið út sérstaka frelsisvísitölu og sagði að Ísland væri, held ég, í 15. sæti og stefndi hraðbyri upp á við.

Hver skyldi nú vera í efsta sæti á frelsisvísitölu þessa hagfræðings? Jú, það er Hong Kong. Og hvernig skyldu menn komast upp eftir þessum vísitölustiga? Jú, það er sennilega m.a. með því að draga úr skuldbindingum sem hvíla á fyrirtækjum í skattalegu tilliti og draga úr hvers kyns eftirliti sem m.a. er hér til umfjöllunar. Ég tek því undir þann tón sem er sleginn hér af ýmsum aðilum í þessari skýrslu um nauðsyn þess að efla eftirlit með fjármálastarfsemi.

Ég, líkt og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, staldraði við þætti í skýrslunni, m.a. þar sem sagt er frá greinargerð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann bendir á ýmsa veikleika í fjármálaeftirliti á Íslandi. Hann segir að þegar á heildina er litið séum við í góðum farvegi en engu að síður séu ýmsir veikleikar sem við þurfum að ráða bót á. Hann talar um að ella verði stöðugleika þessa kerfis stefnt í hættu. Veigamestu ábendingar sjóðsins lúta að eiginfjárhlutföllum íslenskra lánastofnana sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir vera allt of lág. Hann segir að sitthvað sé ótraust sem megi rekja til veikleika í lögum og reglum.

Ég tek undir spurningar sem komu frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að heyra viðbrögð hæstv. viðskrh. við þessari gagnrýni.

Annað sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn víkur að í úttekt sinni er að sérfræðingar sem starfa á vegum Fjármálaeftirlitsins séu of fáir og það þurfi að fjölga í þessari sveit. Reyndar staldrar maður svolítið við þessa ábendingu. Ég minnist samsvarandi ábendingar m.a. frá Ríkisendurskoðun núna nýlega í skýrslu sem efh.- og viðskn. þingsins var send nú í október þar sem vakin er athygli á að beinlínis hafi verið fækkað hér hjá skatteftirlitinu. Í þessari greinargerð Ríkisendurskoðunar segir m.a., með leyfi forseta, og er vísað í töflu sem birt er í greinargerðinni:

,,Engu að síður má úr töflunni lesa ákveðna fækkun sem óneitanlega bendir til þess að skatteftirlit hafi minnkað hér á landi að undanförnu.``

Síðan er þetta rakið. Menn hafa verið með kröfur um það um nokkurt skeið, nokkurra ára bil, að nauðsynlegt sé að fjölga í skatteftirlitinu og að efla skatteftirlitið og það muni verða góð fjárfesting fyrir hinn heiðarlega skattborgara að gera það, þ.e. að efla skatteftirlitið. Það muni auka tekjur ríkissjóðs. En hér kemur á daginn að í stað þess að fjölga þá er fækkað í skatteftirlitinu. Mér finnst áhyggjuefni að svo sé.

Í þessari skýrslu eru talin stöðugildi og fram kemur um eftirlitsskrifstofu ríkisskattstjóra, eftirlitsskrifstofu skattstjórans í Reykjavík, eftirlitsdeild skattstjórans í Reykjanesbæ, skatteftirlit ríkisskattstjóra og eftirlitsfulltrúa á Akranesi, að þar hafi 1997 verið 46 að störfum en 36 núna. Þeim hefur fækkað.

Hér segir:

,,Stöðugildum í eftirliti hefur verið fækkað síðustu ár.``

Hefur verið fækkað. Það er verið að draga úr skatteftirlitinu. Þetta kemur upp í hugann þegar lesnar eru ábendingar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um að nauðsynlegt sé að efla starfsemi Fjármálaeftirlitsins og fjölga sérfræðingum sem séu á þess vegum. Þetta finnst mér að við þurfum að taka til alvarlegrar athugunar.