Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 11:38:11 (1338)

2001-11-08 11:38:11# 127. lþ. 25.1 fundur 230. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (eftirlitsgjald) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[11:38]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ein agnarsmá leiðrétting um stórar peningaupphæðir þó. Ég tel heppilegt og er talsmaður þess að íslenskir lífeyrissjóðir fjárfesti í íslensku atvinnulífi til uppbyggingar þar. Ég hef verið talsmaður þess og er fylgjandi því, hef m.a. viljað að peningar verði látnir renna inn í húsnæðiskerfið til uppbyggingar þar. Ég vil hins vegar að þetta séu traustar skuldbindingar og traustar fjárfestingar og ég hef verið talsmaður þess að lífeyrissjóðirnir dreifi ábyrgð sinni, bæði innan lands en einnig að nokkru marki utan lands.

Ríkisstjórnin flutti hér frv., m.a. átti hæstv. ráðherra Valgerður Sverrisdóttir aðild að því, þar sem þetta fjárfestingarhlutfall var hækkað upp í 50%. Lífeyrissjóðirnir hafa ekki nýtt sér það. Þeir hafa farið rétt yfir 20% vegna þess að menn vilja fara varlega í sakirnar.

Þetta var smáleiðrétting. Ég vakti fyrst og fremst máls á málefnum lífeyrissjóðanna í ljósi rangtúlkana sem fram hafa komið, m.a. frá hæstv. landbrh.

Síðan um stjórnarlaunin sem hæstv. ráðherra finnst alls ekki og há, 75 þús. kr., því það sé svo mikil ábyrgð. Sérstaklega er það mikill fórnarkostnaður að fá ekki leyfi til að braska hér með hlutabréf. Ég get ekki tekið undir það. Hérna er fulltrúi ríkisstjórnar sem gat ekki unnt örorkuþegum að fá 51 þús. kr. á mánuði og barðist um á hæl og hnakka til að færa þá upphæð niður í 33 þús. kr. og enn vil ég minna á það að byrjunarlaun sjúkraliða eru rúmlega 85 þús. kr. og hafa þeir þó talsverða ábyrgð á sínum herðum.