Brunatryggingar

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 12:30:11 (1345)

2001-11-08 12:30:11# 127. lþ. 25.3 fundur 42. mál: #A brunatryggingar# (afskrift brunabótamats) frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[12:30]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru heimskulegar fullyrðingar af hálfu hæstv. viðskrh. og ekki ráðherranum samboðnar. Það er ekki ég ein sem er að tala um að tryggingavernd hafi minnkað. Það hafa komið fram frá tryggingafélögunum sjálfum, t.d. segir hér í Morgunblaðinu: ,,Áhyggjur vegna ónógrar tryggingaverndar``. Tryggingafélögin segja sjálf, einmitt til þess að skapa sér eitthvert svigrúm til þess að fá þá viðbót á iðgjöld vegna trygginga, að þessi nýja regla geti leitt til þess að fólk fái minni bætur en sem nemur virði viðkomandi eignar. Og þar sem ráðherrann skákar í því skjóli að hún sé að verja húseigendur til þess að þeir borgi ekki hærri iðgjöld en ella, þá spyr ég: Munu iðgjöld hjá tryggingafélögunum lækka þegar brunabótamatið lækkar? Við erum að tala um að húseigendur séu jafnsettir fyrir og eftir bæði að því er varðar tryggingavernd og iðgjöld. Og ef brunabótamatið er að lækka, þá spyr ég hæstv. ráðherra: Hefur hún athugað það hjá tryggingafélögunum hvort iðgjöldin muni lækka nú þegar brunabótamatið lækkar? Það er það sem hæstv. ráðherra ber aðallega fyrir sig, þ.e. að hún sé að hugsa um húseigendur að því leyti að iðgjöldin hjá þeim muni þá lækka. En munu þau gera það? Það hefur ekki komið fram hjá tryggingafélögunum og ekki hjá hæstv. ráðherra þannig að málatilbúnaður ráðherrans sem stendur hér og ver tryggingafélögin í bak og fyrir en ekki húseigendur er með ólíkindum. Ég vildi ekki standa í sporum ráðherrans sem hefur haft uppi þennan málatilbúnað ef kemur til brunatjóns eða altjóns á einhverjum heimilum í landinu sem alltaf getur gerst, þar sem fólk mun standa miklu verr eftir en áður. Það segir sig auðvitað sjálft að þegar brunabótamat er að lækka um allt að 50% mun fólk standa miklu verr á eftir. Og hafi ráðherrann skömm fyrir að standa svona að málum.