Reglur um notkun á vél Flugmálastjórnar

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 13:44:09 (1354)

2001-11-08 13:44:09# 127. lþ. 25.94 fundur 114#B reglur um notkun á vél Flugmálastjórnar# (umræður utan dagskrár), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[13:44]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Flugmálastjórn rekur flugvél til að sinna lögboðnum verkefnum. Það er hið besta mál. Þessi flugvél er nýtt af stjórnsýslunni einnig. Það er hið besta mál. Um þessa flugvél gilda tiltekin lög og reglur. Það er nauðsynlegt og hið besta mál. Ég ætla ekki að ræða um lögin og reglurnar og ætla ekki að gefa í skyn að þær séu brotnar. En frá sjónarhóli opins lýðræðissamfélags er augljóslega pottur brotinn.

Lögin kveða á um að farþegalistar skuli haldnir. Í greinargerð frá embætti Ríkisendurskoðunar segir, með leyfi forseta:

,,Frá sjónarhóli þeirra sem sinna ríkisbókhaldi og hafa með höndum eftirlit með fjárreiðum ríkisins má líta svo á að þeim ríkisaðilum sem leigja flugvél Flugmálastjórnar eða annarra flugrekstraraðila beri að gera grein fyrir því í skýringum og tilefni útgjaldanna hver eða hverjir það eru sem voru á ferð í hverju tilviki og af hvaða tilefni ferð er farin.``

Um þetta snýst málið, þ.e. að þessar upplýsingar liggi fyrir og þegar um þær er beðið á Alþingi þá séu þær reiddar fram.

Ég tek undir með hv. þm. Gísla S. Einarssyni að mér finnst það vera eðlileg krafa og eðlilegur framgangsmáti og legg til að þannig verði framvegis starfað.