Reglur um notkun á vél Flugmálastjórnar

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 13:45:52 (1355)

2001-11-08 13:45:52# 127. lþ. 25.94 fundur 114#B reglur um notkun á vél Flugmálastjórnar# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[13:45]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Málsatvik í þessu máli eru ákaflega skýr. Um það er ekki deilt að það er þörf fyrir að Flugmálastjórn eigi þessa vél. Í öðru lagi er ekki deilt um að það eru skýrar reglur um notkun vélarinnar. Í þriðja lagi, og um það er ekki deilt heldur, að Ríkisendurskoðun fylgist með notkun vélarinnar og að reglum sé hlýtt. Í fjórða lagi liggur ekkert fyrir um að um misnotkun hafi verið að ræða. Ef svo væri mundi Ríkisendurskoðun gera viðvart um það. Ég treysti Ríkisendurskoðun til þess að láta vita telji stofnunin út af réttum reglum brugðið. Ég treysti líka hæstv. samgrh. til þess að endurskoða þessar reglur ef talið er nauðsynlegt að breyta þeim en þær eru jú frá 1977.

Það sem um er deilt í málinu er að farþegalista vantar til þess að upplýsa hverjir hafa notað vélina hverju sinni. Eftir þeim upplýsingum sem fram hafa komið opinberlega er ekki hægt að halda því fram að Flugmálastjórn sé skylt að halda þessa lista og geyma þá. Þannig er ekki hægt að segja að við einhvern sé að sakast í þessu efni.

Ég vil hins vegar segja það sem mína skoðun að ég tel að þessar upplýsingar eigi að liggja fyrir hverju sinni, hverjir nota vélina og af hvaða tilefni, vegna þess að ég veit ekki til þess að það sé nein misnotkun á þessu eða hafi verið, og það er sjálfsagt og eðlilegt að hlutirnir sem eru í réttum farvegi séu uppýstir þegar um það er beðið.

Ég hvet þannig til þess að menn bæti úr þessu og eyði þar með tortryggni sem reynt er að sá í málinu. Svo tek ég að nokkru leyti undir málflutning hæstv. samgrh. að mér finnst málshefjandi ganga fulllangt í að varpa rýrð á þá aðila sem hann snýr málinu til.