Reglur um notkun á vél Flugmálastjórnar

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 13:50:03 (1357)

2001-11-08 13:50:03# 127. lþ. 25.94 fundur 114#B reglur um notkun á vél Flugmálastjórnar# (umræður utan dagskrár), BH
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[13:50]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Hæstv. samgrh. kaus að halda hér varnarræðu fyrir notkun ráðherra á vél Flugmálastjórnar, nokkuð sem málshefjandi minntist ekki á einu orði í ræðu sinni, ef ég tók rétt eftir. Hæstv. ráðherra lýsti því yfir að hv. þm. Gísli S. Einarsson hefði lagt sig í framkróka við að gera notkun hæstvirtra ráðherra á vélinni tortryggilega.

Herra forseti. Ég vil mótmæla þessum orðum hæstv. ráðherra. Staðreyndin er sú að það eina sem er tortryggilegt í þessu máli er leyndin sem hvílir yfir notkuninni á þessari vél. Á meðan þessi leynd ríkir er málið tortryggilegt.

Þetta snýst reyndar líka um meðferð gagna. Það hefur komið í ljós að á grundvelli laga um Þjóðskjalasafn er flugrekstraraðilum í eigu ríkisins talið skylt að geyma farþegalista og skal Stjórnarráðið, skv. 5. gr. þeirra laga, og þær stofnanir sem undir það heyra afhenda Þjóðskjalasafni skjöl sín til varðveislu. Þetta skal gera nema stjórn Þjóðskjalasafnsins hafi heimilað Flugmálastjórn að farga þeim sem er ekki tilfellið í þessu máli.

Herra forseti. Mér sýnist málið því nokkuð augljóst. Hæstv. samgrh. hlýtur að bregðast við því ef Flugmálastjórn hefur látið eyða þessum gögnum þar sem um undirstofnun hans er að ræða og vil ég inna hæstv. ráðherrann eftir því hvernig hann hyggist bregðast við.

Hins vegar hafa margir umhugsunarverðir fletir komið upp í þessari umræðu um vélina og einn þeirra er spurningin um það hvort réttlætanlegt sé að vélin sé notuð í samkeppni við aðra flugrekstraraðila sem, eins og kunnugt er, berjast margir í bökkum.

Og það eru að mínu mati ekki, vegna þeirra orða sem komu fram í svari hæstv. ráðherra, rök í málinu að þjónustan sé ódýrari fyrir ráðuneytið. Auðvitað er hún ódýrari, herra forseti, því hún er niðurgreidd og það er ekki sanngjörn samkeppnisstaða fyrir þá aðila sem standa í flugrekstri á Íslandi í dag.