Reglur um notkun á vél Flugmálastjórnar

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 13:51:57 (1358)

2001-11-08 13:51:57# 127. lþ. 25.94 fundur 114#B reglur um notkun á vél Flugmálastjórnar# (umræður utan dagskrár), GHall
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[13:51]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Í blaðaviðtali segir málshefjandi, hv. þm. Gísli S. Einarsson, að hann hafi fengið ábendingar um ónauðsynlega notkun flugvélar Flugmálastjórnar í maímánuði síðastliðnum. Nú fara hv. þm. allt í einu að tala um að málið hafi verið byggt upp á allt öðrum grunni.

Líklega hefur þingmaðurinn átt við tiltekinn dag í þessu blaðaviðtali. Þann tiltekna dag var hæstv. samgrh. fyrir hádegi hér í Reykjavík að sinna embættiserindum sínum og -skyldum, fór svo eftir hádegi með flugvél Flugmálastjórnar til Akureyrar á ársfund Slysavarnafélagsins Landsbjargar þar sem samstarfssamningur milli þess og ríkis var undirritaður og síðla dags flaug ráðherra ferðamála til Stykkishólms þar sem hann sótti heim ferðamálaráðstefnu en vél Flugmálastjórnar hélt áfram til Reykjavíkur án ráðherrans.

Þetta er málið í hnotskurn. Og nú er farið að þyrla upp allt öðru máli sem snýr að einhverjum farþegalista. Meira að segja hafa menn sagt hér að hv. þm., frummælandi Gísli S. Einarsson, hafi hvergi vikið að því að flugvélin sé ekki til gagns. Hann sagði hér í ræðu sinni rétt áðan að eðlilegt væri að leita útboða gagnvart flugvélinni, hún væri líklega óþörf. En svo koma hér aðrir og segja að þingmaðurinn hafi ekkert verið að tala um það, hann vilji bara farþegalista.

Hér eru menn sjálfum sér ósamkvæmir og það sem er auðvitað undirliggjandi og sem er mál málanna er að hv. frummælandi þessarar utandagskrárumræðu, Gísli S. Einarsson, er að gera störf samgrh. tortryggileg með einum eða öðrum hætti. Við erum öll sammála um að auðvitað eiga upplýsingar að liggja fyrir um flugvél Flugmálastjórnar og notkun hennar. (Gripið fram í.) En það er annað líka sem hv. þm. kom hér inn á áðan, að tryggingar og annað væri ekki í þeim farvegi sem það ætti að vera. Það er rangt. Það eru skýr lög og reglur um það mál.