Reglur um notkun á vél Flugmálastjórnar

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 13:54:22 (1359)

2001-11-08 13:54:22# 127. lþ. 25.94 fundur 114#B reglur um notkun á vél Flugmálastjórnar# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[13:54]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Mér finnst þetta vera mislukkað og undarlegt frumhlaup hjá hv. þm. Gísla S. Einarssyni af litlu tilefni.

Ég hef að vísu ekki á undanförnum þremur árum notað þessa flugvél vegna þess að mér þykir þetta vera of dýr ferðamáti. Ég hef reynt að fara með áætlunarflugi eða keyra. En ráðuneytisstjóri minn og deildarstjóri hafa ásamt embættismönnum úr öðrum ráðuneytum einu sinni notað þessa flugvél, sem eðlilegt var og mjög praktískt.

Ég tel hins vegar að það sé skynsamlegt af ráðherrum, ef þeir hafa ekki annan kost, að nota fremur flugmálastjórnarvélina en annað leiguflug. Þessi vél er eign ríkisins. Ríkið verður að eiga þessa vél. Notkun léttir reksturinn. Það hefur komið fram að 12% af flugtíma vélarinnar hafi verið í svona snúningum. Þar fyrir utan er þessi vél ákaflega öruggur farkostur. Og það má hafa í huga. Hún hefur líka sannað það í allra handa björgunar- og leitarflugi við mjög erfiðar aðstæður, verstu aðstæður. Og það eru líka framúrskarandi hæfir flugmenn á þessari vél.

Varðandi þetta með farþegalistann, þá held ég að bókhald ráðuneytanna sé í það góðu lagi að Ríkisendurskoðun geti fylgst með því hvort um eðlilega notkun hefur verið að ræða eða ekki. Og að farþegalistar þurfi að vera á Þjóðskjalasafninu finnst mér taka út yfir allan þjófabálk.