Reglur um notkun á vél Flugmálastjórnar

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 13:56:27 (1360)

2001-11-08 13:56:27# 127. lþ. 25.94 fundur 114#B reglur um notkun á vél Flugmálastjórnar# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[13:56]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Samfylkingin fór fram á það í maímánuði síðastliðnum að Ríkisendurskoðun gerði stjórnsýsluúttekt á Flugmálastjórn og mér sýnist ekki af veita vegna þeirrar margvíslegu gagnrýni sem komið hefur fram á Flugmálastjórn. Allt of oft virðist vera brotið gegn ýmsum lögum.

Það er auðvitað vafamál að vél Flugmálastjórnar sé notuð í samkeppni við flugrekendur um verkefni eins og fyrir ráðuneyti, ráðherra eða stofnanir, sem ekki sinna neyðar- eða bráðaflugi, verkefnum á sviði löggæslu eða almannavarna. Þegar grannt er skoðað er hér um óeðlilega viðskiptahætti að ræða sem hljóta að brjóta í bága við samkeppnislög.

Það hefur líka verið gagnrýnt að það vantar skýrar reglur um geymslu á farþegalistum. Og ég spyr hæstv. ráðherra: Mun sú reglugerð sem hann (Gripið fram í.) var að segja frá hér áðan að yrði sett innan tíðar ná til farþegalista í vél Flugmálastjórnar? Ég held að það sé brýnt að það komi fram. Þetta er sett með stoð í lögum frá 1998, og samkvæmt drögunum á að varðveita farþegalistana í þrjú ár og brýnt er að fram komi hvort þetta nái þá til vélar Flugmálastjórnar.

Það hefur líka verið gerð alvarleg athugasemd við þá breytingu sem er orðin núna á ritun fundargerða flugráðs og það tel ég afar alvarlegt. Sú breyting var gerð vegna áhuga fjölmiðla á störfum flugráðs en samkvæmt upplýsingalögum eiga stjórnvöld að skrá mál sem koma til meðferðar hjá þeim á kerfisbundinn hátt. Það virðist brjóta gegn upplýsingalögum að standa þannig að málum.

Ég tel afar brýnt miðað við allt sem fram hefur komið í þessu máli að stjórnsýsluúttektinni verði hraðað. Á það hljótum við að leggja áherslu og m.a. þá að Ríkisendurskoðun skoði þá þætti sem hér hafa verið til umræðu upp á síðkastið og gagnrýndir hafa verið, sem í mörgum tilfellum virðast brjóta gegn lögum.