Brunatryggingar

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 14:06:02 (1365)

2001-11-08 14:06:02# 127. lþ. 25.3 fundur 42. mál: #A brunatryggingar# (afskrift brunabótamats) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[14:06]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Ég er meðflutningsmaður að því frv. sem við ræðum um breytingu á lögum um brunatryggingar. Þetta mál var til umræðu í morgun áður en fundi var frestað. Ég vil þakka þær ræður sem þegar hafa verið fluttar, bæði af hv. 1. flm. og framsögumanni Jóhönnu Sigurðardóttur og þeim öðrum þm. hv. sem hér tóku til máls, og skýrðu málið mjög vel.

Það sem mig langar að gera að umræðuefni í þessu máli er í rauninni sú hugsun sem felst í frv. eins og við leggjum það fram, þ.e. að reyna að bæta fólki tjón sem hefur orðið fyrir því, þannig að menn séu sem næst því jafnsettir eftir tjón, þó að aldrei verði þeir jafnsettir eftir brunatjón, þá séu þeir sem næst því jafnsettir að eignast sambærilegt húsnæði.

Ég veit ekki hvort hv. þm. hafa tekið eftir því en í gær var dreift svari við fyrirspurn hv. þm. Örlygs Hnefils Jónssonar, um þróun fasteignaverðs íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni. Það er svolítið athyglisvert að víkja að því í umræðunni vegna þess að fasteignaverð er misjafnt um landið og þó fasteignagjöld hafi lengi verið eins á landinu, þá hefur því verið breytt sem betur fer og menn greiða nú fasteignagjöld af fasteignum sínum í samræmi við það söluverð sem ríkir á svæðinu. En til þess verður vissulega að taka að söluverð fasteigna er alls ekkert endilega það sama og kostnaður við byggingu fasteignar.

Þegar menn hafa byggt sér hús sem er siður okkar Íslendinga flestra eða mjög margra, það er mjög ríkjandi hér á landi að fjölskyldan vill eiga sitt eigið hús eða sína eigin íbúð, þá þarf ekki endilega að vera samræmi milli þess að tapa viðkomandi eign í bruna og þess að hægt sé að byggja nýtt hús eða nýja íbúð fyrir andvirðið. Því miður er ekki svo í pottinn búið.

Það segir hins vegar ekkert um að það kosti jafnvel ekki meira að byggja húsnæði úti á landi en í Reykjavík, þó að fermetraverðið sé allt annað. Í svari við fyrirspurn hv. þm. Örlygs Hnefils Jónssonar, þar sem hann spurði um íbúðarhúsnæði eftir kjördæmum og fermetraverð og er rétt að draga það inn í umræðuna, kemur fram að fermetraverð á íbúðarhúsnæði eftir landsvæðum er mjög misjafnt. Og það hefur breyst geysilega mikið á undanförnum tíu árum.

Árið 1990 var fermetraverð í Reykjavík 66.000 kr. Þá var fermetraverð á Vesturlandi 35.600 kr., 35.900 kr. á Vestfjörðum og 32.000 kr. á Norðurlandi vestra, svo dæmi séu tekin.

Ef við lítum hins vegar nær okkur í tímanum og skoðum árið 2000, þá er fermetraverð í Reykjavík 109.605, á Vesturlandi 58.000, á Vestfjörðum 39.700 og á Norðurlandi vestra 42.000.

Þetta segir okkur að verð á landsbyggðinni hefur þróast allt öðruvísi á þessum tíu árum en verð á höfuðborgarsvæðinu. Og ef við lítum aftur á upphafsárið í þessum samanburði, 1990, þá er fermetraverð á landsbyggðinni u.þ.b. tvöfalt lægra eða helmingur þess sem það var á höfuborgarsvæðinu.

Ef við hins vegar skoðum árið 2000 kemur í ljós að fermetraverð í Reykjavík er orðið þrisvar sinnum hærra en á landsbyggðinni miðað við þessi þrjú kjördæmi sem ég hef farið yfir.

Það segir hins vegar ekkert um að byggingarkostnaður á landsbyggðinni hafi lækkað sem þessu nemur. Nei, aldeilis ekki. Ég hygg að byggingarkostnaður á landsbyggðinni hafi jafnvel hækkað að öðru leyti en því sem tekur til lóða. Allir vita að lóðaverð í Reykjavík hefur hækkað mikið á sama tíma og lóðir á landsbyggðinni hafa ekki hækkað að sama skapi.

Annar byggingarkostnaður hygg ég að sé ekki minni á landsbyggðinni en í Reykjavík, þ.e. efni, vinna og annað sem þarf til þess að byggja sér hús, það er örugglega að mörgu leyti dýrara vegna flutninga og annars að byggja hús úti á landi en í Reykjavík.

Hvers vegna er ég að draga þetta inn í umræðuna? Jú, ég er að draga þetta inn í umræðuna vegna þess að það er alveg sama hvort fjölskylda býr á Reykjavíkursvæðinu og verður fyrir brunatjóni, eða hvort fjölskylda býr á landsbyggðinni og verður fyrir brunatjóni. Þó að fasteignaverðið sé mjög mismunandi, þá liggur það auðvitað fyrir að tjón fjölskyldu er mikið sem missir hús, hús sem er heimili fjölskyldunnar í þessu tilviki. Fjölskyldan þarf að koma sér upp nýju húsi, koma sér fyrir að nýju, eignast nýtt heimili.

Þess vegna held ég að sú tillaga sem gerð er í frv. af okkur flm. sé fyllilega eðlileg og sanngjörn og það viðhorf að bæta skuli brunatjón það mikið að fólki sé gert kleift að eignast sambærilegt hús, sú hugsun verði að vera inni í brunatryggingunni.

Við Íslendingar höfum borið gæfu til þess að vera með skyldutryggingu varðandi húseignir í sambandi við bruna. Ég tel að það sé einn af hornsteinum okkar í tryggingum hér á landi að þannig skuli það vera í framtíðinni.

Þess vegna held ég að það sé til mikilla bóta að hverfa frá þeirri framsetningu sem sett var í lög 1999 og hverfa til þess að íbúðarhúsnæði verði ekki niðurskrifað vegna aldurs þegar kemur að brunatryggingum. Ég færi þau rök fyrir því að fólk verður að geta eignast nýtt húsnæði og það er ekkert sjálfgefið að fólk vilji kaupa sér eða geti keypt sér hús á þeim stað sem það vill setjast að á ef högum þeirra verður breytt með því að það missi heimili sitt. Það kann að fylgja því mikið rask og fólk kann að vilja jafnvel færa sig á milli landsvæða. Eins og ég hef rakið hér í stuttu máli tel ég að byggingarkostnaður á landsbyggðinni sé eigi lægri en t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Mér finnst og er því meðflutningsmaður að þessu frv. að málin verði að vera þannig úr garði gerð að bætur til fjölskyldunnar séu á þann veg að hún geti eignast húsnæði eða byggt sér nýtt hús, a.m.k. sambærilegt við það sem hún bjó í.

[14:15]

Að vísu er vikið að því í greinargerð að hugsanlega megi binda þetta við það ástand þegar húsið er komið vel á byggingarstig og orðið það sem kallað er tilbúið undir tréverk, þ.e. næsta stig á undan því að það verði íbúðarhæft. Hús getur vissulega orðið íbúðarhæft löngu áður en það er fullbúið. Það þekkja allir sem hafa staðið í því að byggja sér hús að menn reyna oft og tíðum að flytja inn í hús sín áður en þeir ná að fullklára hvert einasta herbergi í húsinu. Þess vegna er hús oft íbúðarhæft áður en það er fullbúið. Eigi að síður er íbúðarhæft hús orðið heimili fólks og fullbúið hús auðvitað enn betra heimili.

Ég held að eini möguleikinn, ef menn fallast ekki á að taka tillit til þess sem lagt er til í þessu frv. --- sem ég held að menn eigi að gera, fyrir því eru full rök og skynsemi --- sé sá að hús sem er tilbúið undir tréverk og málningu skuli þó bætt að fullu. Ég held að það sé algjör lágmarkskrafa.

Ég verð að segja eins og er að ég furða mig svolítið á málflutningi hæstv. ráðherra hér í morgun og skilningi hans á þessu máli. Sem betur fer tekur fólk oft ástfóstri við heimili sitt og vill gjarnan búa þar í mörg ár. Svo við tökum sem dæmi ellilífeyrisþega þá hefur fólk kannski búið í húsinu sínu í 30--40 ár og vill helst hvergi annars staðar búa, meðan það á annað borð getur búið utan verndaðs húsnæðis. Oftast nær er húsnæði þessa fólks mjög gott og vel við haldið. Það hugsar yfirleitt mjög vel um íbúðir sínar eða þá fær þá aðra til þess. Þó að heimili þeirra séu orðin 30--40 ára þá er ekkert samasemmerki á milli þess og að húsið sé lélegt eða illa við haldið.

Ég vil mælast til þess að hæstv. ráðherra hverfi svolítið frá þeim viðhorfum sem hann gerði grein fyrir í ræðustól í morgun og taki tillit til þess sem lagt er til í þessu frv. Ég tel að það sé til mikilla bóta og að ekki sé verjandi að láta málin þróast á þann hátt að fólk geti staðið uppi með það að tjónsbætur vegna bruna séu aðeins hálfvirði íbúðarhúsnæðis af sambærilegum gæðum, þ.e. sambærilegs heimilis og fólk hefur búið við.

Ég minntist hér á fermetraverð á landsbyggðinni, eingöngu til að draga það fram að þó að fólk byggi sér hús úti á landi, þ.e. utan suðvesturhornsins, eins og fram kom í þeim tölum sem ég vitnaði til, þá hefur orðið veruleg uppsveifla á verðmæti fasteigna á Vesturlandi. Það á auðvitað sérstaklega við um Akranes og Borgarfjarðarsvæðið þar sem fermetraverð hefur næstum því tvöfaldast á sl. tíu árum og er nánast helmingurinn af því sem það er í Reykjavík á meðan fermetraverð á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra er um þriðjungur þess sem það er í Reykjavík. Auðvitað er ekkert samasemmerki á milli þessa fermetraverðs, og þar af leiðandi fasteignamats, og þess kostnaðar sem í því felst að byggja sér hús og eignast heimili.

Ég held að það hljóti að vera svo, þar sem Íslendingar vilja viðhalda skyldutryggingunni og það er í raun hluti af tryggingarkerfi okkar, þá hljótum við einnig að vilja að bæturnar fyrir heimili okkar, ef það brennur, séu a.m.k. nægjanleg trygging fyrir því að eignast sambærilegt húsnæði við það sem viðkomandi hefur þurft að hverfa frá vegna brunans. Þetta er megininntak þessa frv. Ég tel að það sé til mikilla bóta og skora á þá sem ekki hafa sömu sýn á málið að endurskoða afstöðu sína.