Brunatryggingar

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 14:40:26 (1368)

2001-11-08 14:40:26# 127. lþ. 25.3 fundur 42. mál: #A brunatryggingar# (afskrift brunabótamats) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[14:40]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er best að hafa það á hreinu að fasteignamatið tilheyrir fjmrn. og brunabótamatið tilheyrir viðskrn. Ekki er hægt að slá því föstu að gamla fasteignamatið eða gamla brunabótamatið hafi í öllum tilfellum verið rétt. Það er ekki nein heilög stærð. Fyrning er slumpareikningur og það sem ég átti við er að ég held að þær niðurskriftir á eignum í brunabótamatinu sem farið var eftir hafi í ýmsum tilfellum verið óeðlilega miklar. En húseigendur áttu kost á kæruleiðinni og mörg þúsund notuðu sér hana. Ég man ekki hvort það voru 9 þús. einstaklingar sem kærðu brunabótamatið. Það var mikill fjöldi og ég held að við verðum að bíða og sjá hvað út úr þeim kærum kemur. Þessi lög eru ekkert heilög og það getur vel verið að það þurfi að breyta þeim. Ég vil ekkert loka fyrir það. En það sjáum við þegar endanleg niðurstaða kemur í kærurnar.

Það sem snýr að mínu ráðuneyti er að lán Íbúðalánasjóðs tóku mið af brunabótamati, þ.e. að lánað var út á notað húsnæði 65% af brunabótamati eða 70% ef um fyrstu eign var að ræða. Við breyttum þessu og síðan 1. september er miðað við 65% eða 70% af kaupverði sem þurfi þó að rúmast innan 85% af brunabótamati. Þessi 85% tala var sett til að hafa borð fyrir báru til að vernda hagsmuni Íbúðalánasjóðs, þ.e. að vera ekki að láta Íbúðalánasjóð taka óþarfa áhættu með því að fara að lána kannski upp í 100% sem sumum sýndist vera eðlilegt.

Ég spurðist fyrir um það áðan hjá Íbúðalánasjóði hver þróunin hefði verið, hvort margir hefðu rekið sig upp í þetta 85% þak. Síðan 1. september er búið að afgreiða í Íbúðalánasjóði yfir 2.000 lán, en það eru örfá dæmi þess --- en það finnast dæmi --- að menn hafa rekið sig í þetta 85% þak. En þau eru að því er mér skilst teljandi á fingrunum. Það finnast sem sagt tilvik en þau eru örfá og ekki þannig að það hafi verið neinn verulegur skellur.

Það er líka hægt að hafa það í huga að hámarkslán á notaða íbúð eru 8 millj. og á nýja íbúð 9 millj. þannig að það er ekki eins og nein undur hafi skeð. Þetta hefur ekki orðið húskaupendum til hnekkis, þ.e. þessi 85% eða þessi viðmiðun við brunabótamatið sem hækkar reyndar úr 65 þá, ef menn vilja meina það, upp í 85. Það eru ekki nema örfáir sem hafa rekist upp undir þetta þak. Eins og ég segi, ef niðurstaða úr þessum kærum verður slík að manni sýnist að illa sé við hana búandi þá finnst mér eðlilegt að breyta lögunum.