Brunatryggingar

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 14:45:06 (1369)

2001-11-08 14:45:06# 127. lþ. 25.3 fundur 42. mál: #A brunatryggingar# (afskrift brunabótamats) frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[14:45]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna þessum síðustu orðum ráðherrans. Ráðherrann vill skoða það að ná samstöðu um breytingar á þessu frv. ef í ljós kemur að þetta sé óeðlilegt. Ég held að það liggi nú þegar fyrir. Þó að kærurnar séu kannski ekki nema 10 þús. þá er alveg ljóst að brunabótamatið lækkaði á tæplega 70 þús. af 102 þús. eignum. Hluti af þessu var af eðlilegum orsökum eins og ráðherrann nefndi vegna þess að það vantaði samræmingu á milli sambærilegra eigna en það eru fyrst og fremst afskriftirnar sem við höfum gagnrýnt. Ég fagna þeim liðsmanni sem við sem viljum tala fyrir þessari breytingu höfum fengið í okkar hóp og ég hef grun um að í röðum stjórnarliða séu það miklu fleiri en ráðherrann sem mundu vilja standa að breytingu eins og við erum hér að leggja til.

Ég ætla að geyma mér það, herra forseti, að ræða það sem snýr að húsnæðiskerfinu og að lánshæfi eigna sé miðað við brunabótamat sem ég tel óeðlilegt, ekki síst undir þessum kringumstæðum. Ég minni hins vegar á að það var gerð úttekt á því af Íbúðalánasjóði nú í sumar að hve miklu leyti brunabótamatið skerti lánshæfi eigna. Þá kom í ljós að brunabótamat skerti meira en fimmtu hverja lánsumsókn þannig að 3.000 manns fengu skert lán vegna þessa. Að vísu hefur ráðherrann, eftir að þessi úttekt var gerð, hækkað eilítið viðmiðið í brunabótamati. Ég þekki hins vegar nokkur dæmi um það, sérstaklega í litlum íbúðum, tveggja herbergja íbúðum að fólk hafi rekið sig á þessi mörk. Ég held að hæstv. ráðherra vilji sjálfur breyta þessu en Seðlabankinn ráði þar of mikið ferðinni.