Heilbrigðisþjónusta

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 15:25:41 (1374)

2001-11-08 15:25:41# 127. lþ. 25.5 fundur 229. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (Heyrnar- og talmeinastöð) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[15:25]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. beindi til mín fyrirspurnum um þrjú, fjögur atriði. Í fyrsta lagi hvort framkvæmd frv. mundi kosta fjármuni. Því er til að svara að það kostar vissulega fjármuni að eyða þeim biðlistum eins og fram hefur komið. Við erum í viðræðum við fjmrn. varðandi þessi mál. En hitt verður að taka fram í því sambandi að unnið er mikið starf eins og hv. ræðumaður kom inn á í Heyrnar- og talmeinastöðinni við að endurskipuleggja starfsemi hennar þannig að við höfum auðvitað hliðsjón af því verki sem þar er unnið og við vinnum náið með nýjum framkvæmdastjóra varðandi það að halda utan um þá fjárþörf. Það er þegar frá gengið í fjáraukalögum að skuldir Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar frá fyrri árum eru greiddar samkvæmt fjáraukalögum sem liggja fyrir en við erum í viðræðum við fjmrn. um annað.

Annað mál er hvort eigi að auka hlutdeild sjúklinga. Ég hef gefið skýrar yfirlýsingar um það að ég hef ekki áform um raunaukningu á hlutdeild sjúklinga.

Í þriðja lagi hvort hér sé verið að opna fyrir einkavæðingu. Vissulega er verið að opna fyrir samkeppni varðandi þessa þjónustu en ég tel að --- ég er ekki tilbúinn að leggja til það fyrirkomulag --- Tryggingastofnun muni taka þátt í þessari þjónustu hvar sem hún er veitt þegar frv. hefur tekið gildi.