Heilbrigðisþjónusta

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 15:47:49 (1379)

2001-11-08 15:47:49# 127. lþ. 25.5 fundur 229. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (Heyrnar- og talmeinastöð) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[15:47]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hér er til umfjöllunar frv. til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu. Í raun er verið að fella niður lög um Heyrnar- og talmeinastöð Íslands. Um Heyrnar- og talmeinastöðina hafa gilt sérstök lög frá árinu 1980 og með frv. á að fella ákvæði um Heyrnar- og talmeinastöðina inn í almenn lög um heilbrigðisþjónustu. Ég tel að það geti verið af hinu góða að einfalda þetta og hafa þannig að menn hafi frekari heildarsýn yfir lög um heilbrigðisþjónustuna.

Herra forseti. Okkur sem hér erum er öllum kunnugt um þau vandamál sem hafa verið hjá heyrnarskertum og heyrnarlausum. Hjá þeim sem hafa þurft að fá þjónustu Heyrnar- og talmeinastöðvar og heyrnartæki hefur verið langur biðtími bæði eftir heyrnarmælingum og þó sérstaklega eftir heyrnartækjum. Þannig hefur það verið í mörg ár.

Ég hef kynnst vandamálum þessarar stofnunar gegnum fyrra starf mitt sem hjúkrunarfræðingur á heilsugæslustöð sem þurfti bæði að sækja þjónustu frá Heyrnar- og talmeinastöðinni og fá sérfræðiþjónustu út á land, fá árlegar vitjanir og eins með því að fylgjast með sjúklingum sem þurftu þjónustu Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar.

Ég vil taka það fram, herra forseti, að ég held að allir viðurkenni að þrátt fyrir mikla erfiðleika hjá þessari stofnun þá hafa þar um langt skeið starfað mjög hæfir einstaklingar og duglegir. Þeir hafa sinnt starfi sínu vel. Það hafa komið upp erfiðleikar með stjórn stofnunarinnar en mestu erfiðleikarnir hafa verið vegna fjárskorts sem hefur háð starfseminni mörg undanfarin ár. Stofnuninni hefur verið ætlað --- fyrir utan þá sérfræðiþjónustu að meta heyrnarskerðingu og segja til um lausnir og setja upp heyrnartæki --- að kaupa inn heyrnartæki og sjá um úthlutun. Það var oftar en einu sinni að ég rak mig á að þegar leið á árið og leitað var eftir afgreiðslu á heyrnartækjum þá var hægt að mæla, en afgreiðsla tækjanna varð að bíða fram á næsta ár því peningarnir voru búnir. Það fjármagn sem stofnuninni var ætlað til innkaupa kláraðist á fyrstu mánuðum ársins og afgreiðslan varð að bíða til næsta árs.

Það segir sig náttúrlega sjálft að eins og þetta hefur verið þá gengur það ekki --- hvort sem stofnunin hefur verið sett í þessa aðstöðu eða komið sér í þessa aðstöðu, ég skal ekkert segja um það --- en svona hefur þetta verið og það hefur náttúrlega ekki hjálpað til við að veita góða þjónustu.

Ég veit, herra forseti, að á undanförnu ári, sérstaklega frá því sl. vor, þá hefur átt sér stað mikil endurskipulagning innan Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar. Þar er fólk að leggja sig fram um að breyta verkháttum. Ég tel að það sé af hinu góða að afgreiða heyrnartæki eins og hvert annað hjálpartæki sem við höfum aðgang að og fella afgreiðslu heyrnartækjanna undir afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins, þ.e. undir hjálpartækjamiðstöðina. Ég held að þá væri sama hvort afgreiðslan væri frá Heyrnar- og talmeinastöðinni eða frá einkareknum stöðvum úti í bæ.

Herra forseti. Mér sýnist það alveg ljóst að með þessum breytingum á frv. til laga um heilbrigðisþjónustu er verið að opna fyrir einkareknar stöðvar eða þjónustu við heyrnarlausa. Ég held að við munum skoða vel í hv. heilbr.- og trn. hvernig þessi starfsemi er fyrirhuguð í framtíðinni. Eftir því sem mér sýnist, herra forseti, er bæði opnað fyrir að veita rekstrarleyfi til að annast alla þjónustuna sem hér um ræðir eða hluta þeirrar þjónustu yfir til einkaaðila. Ég held að við megum ekki skilja við afgreiðslu þessa frv. án þess að hafa myndina alveg ljósa.

Varðandi gjaldahlið frv. þá sýnist mér, þar sem þetta á ekki að kosta ríkissjóð meiri fjárútlát, hún ekki standast, ekki miðað við þá biðlista sem eru eftir heyrnartækjum og þann kostnað sem þegar liggur fyrir. Þá hlýtur það að kosta ríkissjóð eitthvað að mæla með því að tækjakaupin fari í gegnum Tryggingastofnun ríkisins og farið verði með þau eins og hvert annað hjálpartæki, það hlýtur að vera útgjaldaaukning. Ég vil ekki trúa því að fólki verði gert að borga tækin að fullu. Það væri þá undantekning frá þeim reglum sem gilda um hjálpartæki.

Eins finnst mér vera hægt að lesa úr frv. að það eigi að hækka mjög gjöld þeirra sem fá þjónustu hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni. Heimsókn þar á að vera sambærileg við vitjun til sérfræðinga og á jafnframt að standa undir öllum rekstri stofnunarinnar. Mér finnst rétt að við fáum svar við því hvort verið er að setja þetta inn til þess að auðvelda yfirfærslu á einkarekna stofnun. Er það sem hér stendur rétt skilið: ,,Skal gjaldskráin taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna. Heyrnar- og talmeinastöðin innheimtir gjöld þessi.`` Á gjaldtakan sem sagt alfarið að standa undir rekstrinum? Þetta skiptir miklu máli.

Ég sakna þess, herra forseti, að ekki hefur þótt ástæða til þess að hafa það í frv. Að mínu mati verður það að vera skilgreint í einum lið sem hlutverk Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar að veita þjónustu á landsbyggðinni. Það er ekki nóg að gera það í þjónustusamningi. Það hefur sýnt sig fram til þessa að um leið og fer að herða að, vanta fjármagn, þá er hægt að segja að segja um þjónustuna á allri landsbyggðinni, landsbyggðarfólkið getur komið til okkar en það er svo dýrt að fara út á land að við höfum bara ekki efni á því. Þegar rekstrarerfiðleikar hafa verið miklir, þá hefur bara ekki verið til peningur til að fara út á land og ég held að það verði þannig áfram. Ég held að það verði bara að vera skilgreint þannig að stöðin þurfi að þjóna öllum íbúum landsins, það verður að vera hlutverk hennar að fara út á land ekki sjaldnar en einu sinni á ári og helst tvisvar á ári. Víða er komin upp mjög góð aðstaða til að taka á móti sérfræðingum Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar. Langflestir þeirra sem sækja þessa þjónustu eru fullorðið fólk og oft á tíðum er þetta heilmikið ferðalag fyrir það að sækja þessa þjónustu.

Herra forseti. Ég beini þeim tilmælum til ráðherra og nefndarmanna að skoða þetta með opnum hug og taka tillit til þessa. Ég vonast til að þeir setji ákvæði í lög um að skýrt verði að þjónustan eigi að fara út á land.