Heilbrigðisþjónusta

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 16:03:35 (1381)

2001-11-08 16:03:35# 127. lþ. 25.5 fundur 229. mál: #A heilbrigðisþjónusta# (Heyrnar- og talmeinastöð) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[16:03]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það eru 1.000 einstaklingar á biðlista eftir heyrnartækjum og það kostar 60 milljónir að eyða þessum biðlistum. Ég hef skilið orð hæstv. ráðherra svo í þessari umræðu --- hann leiðréttir mig ef það er ekki rétt hjá mér --- að hann sé að vinna að því að fá fjármagn við lokaafgreiðslu fjárlaga til að taka megi hraustlega á þessum biðlistum.

En ég fæ það ekki til að koma heim og saman að auka á þjónustuna verulega, þó á ekki að hækka gjaldskrána eftir því sem ráðherrann segir --- hann segir það afdráttarlaust hér í ræðustól, en samt sem áður á gjaldtaka samkvæmt frv. að taka mið af kostnaði við þjónustuna. Það er eitthvað sem vantar upp á í skýringum frá hæstv. ráðherra til þess að þetta gangi upp. Mér finnst það standa út af í þessari umræðu að þetta gengur ekki upp, þessir þættir sem við höfum nefnt hér, þ.e. að bæta eigi þjónustuna, ekki að hækka gjaldskrána en samt á gjaldtakan að taka mið af kostnaði við þjónustuna.

En ég tel að það sé fagnaðarefni að ráðherrann sé að vinna að því að fá aukið fjármagn til að stytta verulega þessa biðlista. Ég hefði líka viljað heyra frá honum hvort verið sé að vinna að því að rýmka rétt heyrnarlausra til túlkaþjónustu sem ég veit að skortir verulega á. Eins hefði verið fróðlegt í þessari umræðu að fá upplýst hjá ráðherra hvort hann sé nokkuð að vinna að því í ráðuneyti sínu að bæta stöðu barna sem þurfa á gleraugum að halda. Ég hef nokkrum sinnum flutt frv. um það hér á þinginu. Þar er veruleg mismunun milli heyrnar- og sjónskertra barna. Ég held að það sé réttlætismál að vinna að því að börn sem þurfa á gleraugum að halda fái aðstoð frá hinu opinbera. Samkvæmt útreikningum mínum kostar það um 50 milljónir og ég spyr hæstv. ráðherra: Er eitthvað verið að vinna að málefnum þeirra barna sem þurfa á gleraugum að halda?