Forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum í meltingarvegi

Fimmtudaginn 08. nóvember 2001, kl. 16:28:57 (1386)

2001-11-08 16:28:57# 127. lþ. 25.8 fundur 44. mál: #A forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum í meltingarvegi# þál., Flm. ÁRÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 127. lþ.

[16:28]

Flm. (Árni R. Árnason):

Herra forseti. Það þingmál sem ég mæli fyrir hefur legið frammi á þskj. 44 var raunar lagt fram fyrr á þessu ári, á síðasta þingi, en varð þá ekki útrætt. Tillagan sem er í tveimur greinum er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og hrinda í framkvæmd víðtæku forvarna- og leitarstarfi vegna krabbameins í meltingarvegi. Jafnframt verði hafinn undirbúningur að því að beita sömu aðferðum, eftir því sem fært er, í baráttu við aðrar algengustu tegundir krabbameina hér á landi og hefja síðar skipulagt og reglubundið forvarna- og leitarstarf vegna þeirra.

Leitar- og forvarnastarf verði byggt á þeim grunni sem lagður hefur verið með starfsemi Leitarstöðvar Krabbameinsfélags Íslands og samstarfsaðila þess, auk víðtækrar samvinnu allra aðila innan og utan heilbrigðisþjónustunnar sem vinna að málefnum krabbameinssjúkra, í heilbrigðisþjónustu, við rannsóknir, í forvarnastarfi, fræðslu og stuðningsþjónustu.``

Flutningsmenn að tillögunni auk mín eru 17 aðrir hv. þingmenn.

[16:30]

Herra forseti. Fyrri dagskrármál þessa þingfundar hafa nokkur vikið að heilbrigðisþjónustunni og raunar voru hér rædd stórmál á fyrra þingi sem einnig snertu heilbrigðisþjónustuna. Rétt er að nefna sérstaklega í þessu samhengi að hæstv. heilbrrh. lagði fram till. til þál. um áætlun í heilbrigðismálum til ársins 2010, raunar einnig skýrslu að beiðni nokkurra hv. þm. um forvarnir gegn krabbameinum og öðrum sjúkdómum sem þeim tengjast. Í þeim tveimur málum komu fram nokkur atriði sem m.a. urðu til þess að þessi tillaga var lögð fram.

Meðal annars kom þar fram að forvarnir gegn krabbameinum og tengdum sjúkdómum hafa ýmiss konar áhrif á heilbrigðisþjónustu, einnig að forvarnastarfið sem hingað til hefur verið unnið hefur náð miklum árangri og verður að segja að starf Krabbameinsfélagsins er saga ekki aðeins mikils starfs heldur glæsilegra sigra. Ekki er hægt að greina annað en að árangur starfsins, sem kemur fram í skýrslu hæstv. heilbrrh. af krabbameinsleit meðal kvenna, hefur minnkað dánartíðni og tekist hefur að taka á sjúkdómnum miklu fyrr en ella hefði orðið.

Þar kemur einnig fram að samvinna heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki skilað þeim árangri sem vonast var til og má m.a. rekja það til þess að læknamönnun stöðvanna er í lágmarki. Nokkur fleiri atriði eru nefnd í þessu efni en þetta er fyrst af öllum talið.

Í grg. með till. til þál. um heilbrigðismálaáætlun kom svipað efni fram sem hlaut að hafa vakið sérstaka athygli fleiri en þeirra sem flytja þessa tillögu. Stefnumörkunin í málefnum heilsugæslunnar með samþykkt heilbrigðislaganna 1973 verður að teljast til undantekninga, en í nefndri grg. var einmitt fjallað um að vinnubrögð af því tagi í heilbrigðiskerfi okkar hafa verið fátíð þó að það sé orðið nokkurra áratuga gamalt.

En það er kannski þess vegna sem samtök á sviði heilbrigðismála hafa átt svolítið erfitt um vik að finna sér verksvið hér á landi og raunar eru þau færri starfandi innan heilbrigðisþjónustunnar, samtök eða sjálfboðaliðar í félögum, en í nokkrum öðrum löndum, m.a. grannlöndum okkar.

Hvað um það, herra forseti, forvarnir gegn krabbameinssjúkdómum hafa smám saman orðið meira umræðuefni í heilbrigðisþjónustunni sjálfri, meðal heilbrigðisstétta, lækna og hjúkrunarfræðinga. Það hefur vakið athygli mína, ekki sem sérfróðum um þessi mál, sem ég er ekki, heldur sem fórnarlambs, að við Íslendingar erum um nokkur atriði skemmra á veg komnir en sumar grannþjóðir okkar og mér hefur ekki þótt það okkur til mikils sóma. Það hefur sérstaklega átt við um forvarnastarf og leit að frumeinkennum þeirra sjúkdóma sem tillagan snýr að, krabbameinssjúkdómum í meltingarvegi. Í Bandaríkjunum vestan við okkur og í Þýskalandi austan við okkur hefur leit að frumeinkennum, leit að góðkynja einkennum sem eru forstig þessara sjúkdóma, staðið um nokkra áratugi með miklu fræðslu- og hvatningarstarfi gagnvart almenningi. En ekki hérlendis.

Ég verð að segja að við Íslendingar leikum okkur stundum að því í umræðu um heilbrigðismál að álíta heilbrigðiskerfi Bandaríkjamanna, jafnvel einnig sumra Evrópuþjóða, lakara en okkar. Mér hefur þá oft orðið hugsað til langra biðlista hér á landi og nokkurra þátta sem við höfum ekki enn byrjað eins og þeirra sem ég ræði nú. Forvarnastarf og almenn leit að einkennum krabbameinssjúkdóma eða forstigseinkennum krabbameins, meðal almennings, meðal áhættuhópa sem er auðvelt að skilgreina hér á landi og meðal aldurshópa sem er enn auðveldara að finna.

Þeir sjúkdómar sem hér er fjallað um eru í flestum skýrslum taldir tveir flokkar sjúkdóma en læknum ber saman um að í raun sé um einn flokk sjúkdóma að ræða. Samtals eru þeir í dag jafnalgengir á Íslandi og þeir tveir sem eru næstalgengastir. Það vill svo til að í báðum kynjum eru aðrir krabbameinssjúkdómar algengari, bæði meðal karla og kvenna en ekki þeir sömu.

Í báðum kynjum er lungnakrabbamein næstalgengast og í báðum tilvikum eru þeir sjúkdómar sem hér um ræðir samanlagt jafnalgengir. Læknum og sérfróðum ber saman um að gagnvart lungnakrabbameinum verði ekki komið við forvörnum, einungis leit að einkennum þegar sjúkdómur er kominn af stað. Hin raunverulega forvörn verði best gerð með því að almenningur, fólk eins og við, stundi ekki reykingar og komist hjá óbeinum reykingum. En þessir sjúkdómar eru lengi einkennalausir, a.m.k. af ytri einkennum, en læknar og sérfróðir þekkja mjög vel orðið öll einkenni sem sjást við sjúkdómsskoðanir, við rannsóknir sem nefndar eru speglanir og þær rannsóknir sem nefndar eru skimanir í blóði. Allt saman tiltölulega einfaldar og óþægindalitlar rannsóknir fyrir okkur ef við komum okkur til lækna. Það er einmitt kannski munurinn á okkur og Bandaríkjamönnum að þar hafa fjölmenn samtök lækna og áhugafólks uppi mikla hvatningarherferð á hverju ári allan ársins hring við almenning. Ekki hér.

Þær aðferðir sem notaðar eru og eru til umræðu hér á landi eru allar orðnar nokkuð vel reyndar í Bandaríkjunum, Þýskalandi og Japan og eru nú til umræðu í nokkrum löndum sem við höfum gjarnan talið aftar okkur í heilbrigðisþjónustu, sumum sem eru greinilega aftar en við í öllum efnahagslegum mælikvörðum, svo sem Pólland og Tékkland, svo merkilegt sem það kann nú að vera.

Um öll þessi lönd á það við að erfiðara er þar að greina áhættuhópa en á Íslandi. Við erum fámenn þjóð, við erum tiltölulega einsleit og hér er mikil vitneskja til um skyldleika okkar sem er grunnur að því að skilgreina áhættuhópa. Við erum í tiltölulega góðu almennu, daglegu sambandi við lækna okkar þegar við þurfum á að halda en við virðumst ekki vera mjög áhugasöm um þessi einkenni sem hins vegar geta breytt mjög miklu þegar þau fara hreyfast.

Við flutningsmenn viljum með tillögunni eindregið hvetja til þess að hér verði þessu máli hrundið af stað. Við teljum að samþykkt þingsályktun um heilbrigðisáætlun til ársins 2010 leggi ágætan grunn að slíku starfi, ekki síst bendum við á þann grunn sem liggur í starfi Krabbameinsfélags Íslands og Leitarstöðvar þess um áratugi og það sem vitað er um okkur Íslendinga sem ég nefndi fyrr í máli mínu.

Það eru hins vegar meginforsendur, ekki aðeins fyrir tillögunni heldur fyrir því að hrinda slíku starfi af stað að við búum að mjög vel menntuðu starfsfólki heilbrigðisþjónustunnar. Bæði í menntun og kunnáttu lækna, hjúkrunarfræðinga og annars starfsfólks. Við búum að mjög góðu og öflugu starfi áhugasjálfboðasamtaka, einkum Krabbameinsfélags Íslands. Við getum þess vegna hrint slíku starfi af stað og við flutningsmenn teljum að við þurfum að ákveða, fræða og hvetja og gera það sem til þarf.

Það er alveg ljóst af þeim ummælum sem komu fram í grg. fyrir þáltill. sem varð síðar ályktun Alþingis um heilbrigðisáætlun til 2010, að við höfum af því efnahagslegan ávinning að beita forvörnum og leita að frumstigum sjúkdóma af þessu tagi. Ekki síst munu sjúklingar og aðstandendur þeirra hafa gríðarlega mikinn heilsufarsávinning af því að sjúkdómarnir verði greindir snemma, jafnvel að einkenni jákvæðra frumubreytinga geti verið greind fljótt svo að ekki verði af sjúkdómar. Ljóst er að við höfum af þessu mikinn félagslegan og heilsufarslegan ávinning og við gætum hugsanlega enn þá síðar varið meiri fjármunum til að fást við aðra sjúkdóma sem þá verða erfiðari.

Herra forseti. Ég vil að lokum leggja til að tillögunni verði vísað til síðari umr. og til hv. heilbr.- og trn. þingsins til athugunar og vænti þess að þar verði leitað umsagnar sem víðast úr samfélaginu.