Lánskjaravísitalan

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 15:09:47 (1399)

2001-11-12 15:09:47# 127. lþ. 26.2 fundur 122#B lánskjaravísitalan# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[15:09]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Vegna fyrirspurnar hv. 5. þm. Vesturl. eru mál er varða verðtryggingu auðvitað jafnan í athugun og skoðun, ekki síst hjá Seðlabanka. Staðreyndin er sú að verðtryggingar hafa verið takmarkaðar á undanförnum árum og úr þeim dregið.

Á hinn bóginn skulum við átta okkur á því að afnám verðtrygginga mundi ekki endilega þýða það að vaxtaskuldbindingar manna mundu minnka. Dæmin hafa sannað að þegar vextir eru eingöngu nafnvextir og ekki verðtryggðir, þá hafa menn borð fyrir báru þannig að raunvaxtatrygging með nafnvaxtatryggingu getur orðið hærri en raunvaxtatrygging með verðtryggingu. Þetta gengur út af fyrir sig einnig í báðar áttir. Segja má að verðtrygging innstæðna eða krafna skapi út af fyrir sig nokkra ró þegar órói er í verðlagsmálum.

Eins og mönnum er kunnugt hefur verðbólga litið um hæl 12 mánuði, verið rétt í kringum 8%. Þriggja mánaða verðbólga er hins vegar rétt í kringum 6% eða rúmlega það eftir því sem ég best veit þannig að verðbólgan er á niðurleið og samkvæmt spám Seðlabanka sem birtar voru í tengslum við vaxtabreytingar, þá gerir bankinn ráð fyrir því að viðmiðunarmörk verðlags sem bankanum eru sett muni nást á þeim tíma sem ætlað er þó að takturinn verði nokkuð annar en áður hefur verið. Þetta vinnur því í báðar áttir og þessi mál eru í sífelldri skoðun.