Málefni Raufarhafnar

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 15:15:10 (1403)

2001-11-12 15:15:10# 127. lþ. 26.2 fundur 123#B málefni Raufarhafnar# (óundirbúin fsp.), JB
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[15:15]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. forsrh. vegna málefna Raufarhafnar.

Á síðustu þremur árum hefur íbúum á Raufarhöfn fækkað um 29% og á þessu ári einu hefur íbúum fækkað um 52. Jafnhliða fækkun íbúanna skerðast tekjur sveitarsjóðs og möguleikar hans til þess að halda uppi eðlilegri þjónustu. Sveitarfélagið hefur sent beiðni til Alþingis og ríkisstjórnar um aðstoð við að stöðva þessa þróun og snúa henni við. Eftir fund með þingmönnum kjördæmisins fyrr í haust og að þeirra áeggjan var sveitarfélagið hvatt til að óska eftir fundi með forsrh. og ríkisstjórn til að kynna hina alvarlegu stöðu sem íbúar sveitarfélagsins standa frammi fyrir og sjá hvaða ráð stjórnvöld gætu veitt.

Herra forseti. Meðan sveitarstjórnin bíður eftir svari um fund með ríkisstjórninni um málið tilkynnir Landsbankinn hf. grundvallarbreytingar á þjónustu sinni í byggðarlaginu. Landsbankinn er eina peningastofnunin þar og hefur nú ákveðið að skera niður þjónustu sína bæði á Kópaskeri og Raufarhöfn, segja upp fjórum starfsmönnum og hafa einungis opið tvo dagparta í viku. Þetta eru dapurleg skilaboð til þessa sveitarfélags.

Ég leyfi mér því að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh. hvort honum sé kunnugt um þennan mikla vanda Raufarhafnarbúa og hvort málefni Raufarhafnar hafi komið inn á borð ríkisstjórnarinnar eins og þeir hafa óskað eftir fyrir milligöngu þingmanna sinna eða með beinum hætti. Staða þeirra er mjög alvarleg.