Dagur sjálfboðaliðans

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 15:21:19 (1408)

2001-11-12 15:21:19# 127. lþ. 26.2 fundur 124#B dagur sjálfboðaliðans# (óundirbúin fsp.), LMR
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[15:21]

Lára Margrét Ragnarsdóttir:

Herra forseti. Ég vil beina máli mínu til hæstv. forsrh. og ræða um Dag sjálfboðaliðans. Eins og kunnugt er ákváðu Sameinuðu þjóðirnar fyrir nokkrum árum að 5. desember yrði Dagur sjálfboðaliðans. Fyrir nokkru ákváðu Sameinuðu þjóðirnar að árið 2001 yrði helgað starfi sjálfboðaliðans og einkanlega þá 5. desember, en allt árið er að sjálfsögðu helgað því starfi. Hafa Sameinuðu þjóðirnar hvatt stjórnvöld, fjölþjóðastofnanir og frjáls félagasamtök til að nýta sér þetta ár sérstaklega til að vinna að málefnum sjálfboðaliða og vekja athygli á því mikilvæga en oft lítt sýnilega hlutverki sem sjálfboðaliðar gegna um veröld alla.

Íslendingar hafa ríka hefð hvað störf sjálboðaliða varðar og hefur þjóðin átt því mikla láni að fagna, þegar eitthvað bjátar á eða þegar sóst hefur verið eftir stuðningi almennings, að hundruð og jafnvel þúsundir manna hafi boðið fram aðstoð endurgjaldslaust í þágu góðra málefna. Sjálfboðaliðastarfið er gjarnan borið uppi af frjálsum félagasamtökum eins og Rauða krossinum og öðrum alþjóðlegum líknarsamtökum, kirkjusamtökum og kvenfélögum, Bandalagi íslenskra skáta, Amnesty International, KFUM og KFUK, að ótöldu ýmiss konar starfi bæði í grunnskólum og á öðrum vettvangi.

Á þessu ári hefur Evrópuráðsþingið enn fremur beint þeim tilmælum til aðildarríkja Evrópuráðsins að starf sjálfboðaliðans verði metið að verðleikum. Í því ljósi er vert að benda á að rannsóknir hafa sýnt fram á að störf sjálfboðaliða eru stór hluti af landsframleiðslu hvers ríkis, allt frá 10--20% af landsframleiðslu. Þess vegna vil ég gjarnan fá að spyrja hvort ríkisstjórnin hafi áætlanir um að að fagna opinberlega ári sjálfboðaliðans, þá sérstaklega 5. desember, og vekja þannig athygli á mikilvægi sjálfboðaliðastarfs og heiðra með því hinn mikla fjölda fórnfúsra íslenskra sjálfboðaliða.