Dagur sjálfboðaliðans

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 15:23:37 (1409)

2001-11-12 15:23:37# 127. lþ. 26.2 fundur 124#B dagur sjálfboðaliðans# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[15:23]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Mér er ekki kunnugt um að tekin hafi verið sérstök ákvörðun um það af hálfu ríkisstjórnarinnar að efna til atburða í tilefni af því sem hv. þm. nefndi. Á hinn bóginn má segja að sjálfboðaliðastarf hér á landi hefur verið gríðarlega umfangsmikið og umfangsmeira, hygg ég, á sumum sviðum en annars staðar gerist, til að mynda vegna þess að við höfum ekki sömu skilyrði og aðrir. Hér búum við ekki við her og það hlutverk sem her getur gegnt á friðartímum á heimavelli en hins vegar höfum við her manna um landið allt, þúsundir manna sem eru tilbúnir til þess að leggja líf og limi í hættu fyrir aðra í válegum veðrum og við stórkostlega erfiðar aðstæður. Þetta sjáum við, þetta þekkjum við og þetta metum við. Þess vegna hafa til að mynda þingmenn og fjárveitingavaldið lagt heilmikla fjármuni til slíkra hluta, til að sýna að þeir meti í raun það sem þarna er gert. Fjmrn. fellir niður gjöld af búnaði slíkra aðila o.s.frv.

Þetta er hins vegar aðeins einn lítill þáttur af sjálfboðaliðastarfinu. Hv. þm. nefndi Rauða krossinn. Við getum nefnt íþróttahreyfinguna, safnaðarstarfið, kvenfélögin og áfram gætum við haldið og endalaust talið upp þann mikla atbeina við þjóðfélagið sem sjálfboðaliðar leggja fram. Meira að segja mætti nefna það sem enginn metur, nema þá kannski við, sjálfboðaliða í pólitísku starfi. Þar eru menn að hamast og fá kannski litla umbun dag eftir dag, sjálfboðaliðar í starfi sem er ekki svo lítils virði fyrir lýðræði í landinu.

Það er gott hjá hv. þm. að vekja athygli á þessum þætti. Við skulum skoða það sérstaklega hvort hægt sé að gera með einhverjum hætti dagamun í tilefni 5. desember af þessu gefna tilefni.