Reglur um flutning hættulegra efna um jarðgöng

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 15:26:48 (1411)

2001-11-12 15:26:48# 127. lþ. 26.2 fundur 125#B reglur um flutning hættulegra efna um jarðgöng# (óundirbúin fsp.), GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[15:26]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Fyrir tæpu ári samþykkti Alþingi samhljóða tillögu mína og þriggja annarra þingmanna um að fela ríkisstjórninni að setja reglur um flutning hættulegra efna um jarðgöng. Miklar umræður urðu um þetta mál í þinginu og fram kom mjög eindreginn vilji til að settar yrðu strangar reglur um þessa flutninga þar sem m.a. yrði kveðið á um hvort slíkir flutningar skuli yfir höfuð leyfðir og þá með hvaða skilyrðum og hvort loka skuli göngum fyrir annarri umferð meðan slíkur flutningur fer fram.

Þessi tillaga kom m.a. fram vegna aðvarana slökkviliðsstjóra, Vinnueftirlitsins og fleiri aðila sem bentu á að mjög erfitt yrði að eiga við björgun ef eldsvoði yrði í Hvalfjarðargöngum, sem er lokað rými og liggur djúpt ofan í jörðunni. Um göngin fara yfir milljón bílar á ári og í þeim mánuðum sem umferðin er mest fara þar í gegn 150 þúsund bílar. Undir þennan tillöguflutning ýttu jafnframt þau hræðilegu og mannskæðu slys sem orðið hafa í jarðgöngum í Evrópu á undanförnum árum.

Síðan þessi tillaga var samþykkt hefur orðið enn eitt stórslysið í Sviss þar sem tugir manna fórust í eldsvoða í jarðgöngum fyrir nokkrum vikum. Á þessu ári hefur oftar en einu sinni legið við að slys yrðu í Hvalfjarðargöngunum, alvarleg slys. Ég minni á að í júlí sl. lak bensín af bensínflutningavagni þegar ventill bilaði. Þar hefði farið illa ef neisti hefði hrokkið í lekann, sem var verulegur. Nýlega kviknaði í bíl efst í göngunum þannig að þarna hefur í tvígang legið við að yrðu jafnvel alvarleg slys.

Ég minni því enn á nauðsyn þess að setja strangar reglur um flutning hættulegra efna um jarðgöng. Best væri náttúrlega að banna þessa flutninga alveg um Hvalfjarðargöngin. Það skapar engin vandræði því að það er góður vegur fyrir Hvalfjörð sem er lítið notaður. Þess vegna spyr ég hæstv. dómsmrh.: Hvenær munu þessar reglur líta dagsins ljós og af hverju þarf að taka svona langan tíma að semja þær, sem ekki virðist mjög flókið?