Reglur um flutning hættulegra efna um jarðgöng

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 15:29:02 (1412)

2001-11-12 15:29:02# 127. lþ. 26.2 fundur 125#B reglur um flutning hættulegra efna um jarðgöng# (óundirbúin fsp.), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[15:29]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þessa fyrirspurn. Það er ljóst að við þurfum að vera vakandi gagnvart umferðaröryggismálum. Slysin sýna það og sanna, því miður.

Ég vil upplýsa að það eru nú þegar í gildi mjög strangar reglur um flutning í gegnum jarðgöng. Þar að auki var brugðist við um leið og þessi þál. var samþykkt. Ég skipaði nefnd sem er undir forustu hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur og í þeirri nefnd eru ýmsir sérfræðingar og fulltrúar stofnana. Nefndin hefur fundað mjög stíft og það sem hefur helst skort á, að því er mér skilst, er að umbeðnar upplýsingar hafa ekki fengist fyrr en núna nýlega, m.a. upplýsingar í sambandi við reglur OECD um þessi efni.

Mér er tjáð að nefndin muni skila áliti sínu fljótlega. Þá munum við að sjálfsögðu hefjast handa við að skoða hvað hægt er að gera. Eins og ég sagði áðan eru þegar í gildi strangar reglur. Flutningum á gasi um Hvalfjarðargöngin hefur t.d. verið hætt þannig að ýmislegt hefur verið gert í þessum málum. Hins vegar er það svo sannarlega rétt hjá hv. þm. að við þurfum að halda vöku okkar í þessum efnum og hafa mjög strangar reglur til að gæta öryggis.