Loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna í Marrakesh

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 15:33:16 (1415)

2001-11-12 15:33:16# 127. lþ. 26.2 fundur 126#B loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna í Marrakesh# (óundirbúin fsp.), KolH
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[15:33]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegur forseti. Eins og kunnugt er lauk um helgina í Marrakesh í Marokkó 7. fundi aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna með samkomulagi aðildarríkjanna um að Kyoto-bókunin tæki gildi í ríkjunum, fyrir utan Bandaríkin sem hafa sagt sig frá bókuninni eins og kunnugt er.

Eins og þingheimi er kunnugt sótti Vinstri hreyfingin -- grænt framboð það fast að fá að senda fulltrúa til fundarins í umboði Alþingis en því var hafnað og hefur sú sem hér stendur því ekki haft tök á að fylgjast með því sem gerðist á fundinum öðruvísi en í gegnum fjölmiðla og hafa þeir greint frá nokkuð átakamiklum lokaspretti á fundinum. Í Morgunblaðinu í gær var vitnað til orða hæstv. umhvrh. þar sem hún tjáir sig um kröfur þeirra landa sem starfað hafa ásamt Íslandi í svokölluðum regnhlífarhópi í aðildarríkjaþingunum, en um er að ræða Ástralíu, Kanada, Japan og Rússland sem óskuðu eftir sérstökum tilslökunum sem þau fengu samþykktar á lokasprettinum. Um þetta segir hæstv. umhvrh. í Morgunblaðinu í gær, með leyfi forseta:

,,Með þessari eftirgjöf ... var verið að útvatna samninginn.``

Af þessu tilefni beini ég eftirfarandi spurningum til hæstv. ráðherra:

Í fyrsta lagi. Hvað á hæstv. ráðherra við með þessum ummælum sínum í Morgunblaðinu í gær?

Í öðru lagi. Hversu mikla aukningu á losun í prósentum talið heimilar íslenska ákvæðið sem nú er búið að samþykkja og bindingarákvæði samkomulagsins Íslendingum? Og kannski í framhaldi af því: Þurfa Íslendingar eitthvað að draga úr losun þar eð markmið ríkisstjórnarinnar um undanþágu frá Kyoto-bókuninni hafa náð fram að ganga?