Loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna í Marrakesh

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 15:41:12 (1420)

2001-11-12 15:41:12# 127. lþ. 26.2 fundur 126#B loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna í Marrakesh# (óundirbúin fsp.), umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[15:41]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég hélt að mönnum væri ljóst að að sjálfsögðu er íslenska ákvæðið hátt í prósentum talið. En af hverju er það? Það er vegna þess að Ísland fékk 10% í plús í Kyoto. Eitt álver, við getum nefnt Norðurál sem dæmi eða önnur álver, eitt álver hækkar losun okkar um u.þ.b. 20% af því að við erum lítið hagkerfi. Sama álver hækkar prósentutöluna um 0,000 eitthvað í stærri hagkerfum. Af hverju eigum við ekki að nota okkar endurnýjanlegu orku til þess að fara í slíkar framkvæmdir í framtíðinni? Það er fáránlegt að útiloka það.

Ég vil einnig benda á að með því að nota endurnýjanlega orkugjafa mun slíkt álver losa átta sinnum minna af gróðurhúsalofttegundum á Íslandi með endurnýjanlegum orkugjöfum heldur en annars staðar þar sem notuð eru kol eða olía. Og af hverju á að útiloka Íslendinga frá því þegar heimurinn kallar á endurnýjanlega orku og er að fara í kjarnorku? Hvert halda menn að kjarnorkuúrgangurinn verði sendur? Trúlega til Norðvestur-Rússlands, jafnvel í kringum okkar hafsvæði og það er annað átakamál sem á eftir að ræða.