Svar við fyrirspurn

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 15:45:36 (1422)

2001-11-12 15:45:36# 127. lþ. 26.91 fundur 117#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[15:45]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði síðast við hv. þm. hefur sá er hér stendur engan áhuga á að leyna þingið eða neinn annan þeim upplýsingum sem hann á aðgang að enda ekkert að fela. Jarðasalan er nú í mjög öruggum farvegi eftir að Ríkisendurskoðun og landbrn. gerðu þar samning um. Ríkiskaup hafa tekið að sér að auglýsa jarðir og meta samkvæmt 38. gr. jarðalaganna þannig að það er allt í skýrum farvegi.

Hins vegar kom mér á óvart það sem hv. þm. sagði hér frá og ég sé að er rétt, að í ríkisreikningi eru birt verð á jörðum sem seldar hafa verið í þrjú ár. Það kemur ráðuneyti mínu á óvart, það kemur Ríkisendurskoðun einnig á óvart, því að hér er ég með í höndunum skýrslu úrskurðarnefndar um upplýsingar þar sem tveir úrskurðir eru felldir þess efnis að ráðherrann og ráðuneytið megi ekki upplýsa um andvirðið. Þarna stangast því eitthvað á. Ég mun auðvitað fara yfir hvað það er.

Það er alveg ljóst í mínum huga að ráðherra sem fær á sig úrskurð og brýtur hann er sakaverður. Það verður að kjöldraga svoleiðis pilt sem brýtur úrskurð og brýtur lög þannig að ég vil ekki verða til þess að gera slíkt en þetta kemur sem sé á óvart, að þessar upplýsingar séu í ríkisreikningi, og ég mun fara yfir það. Ef þessar upplýsingar eiga að birtast hér og mega það lögum samkvæmt er það sjálfsagður hlutur. Hv. þm. fór síðast með rangt mál og sagði að Ríkiskaup hefðu allar upplýsingar um hvaða jarðir hefðu verið seldar frá 1995. Ríkiskaup komu ekkert að þessum málum fyrr en 1999.

Hæstv. forseti. Þeim sem hér stendur hafa ekki orðið á rangfærslur vísvitandi en hér greinir á um ákveðin atriði sem ég tel rétt að fara yfir.