Svar við fyrirspurn

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 15:53:46 (1426)

2001-11-12 15:53:46# 127. lþ. 26.91 fundur 117#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[15:53]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Það er rétt. Hæstv. ráðherra skuldar skýringar á þeim svörum sem hann gefur. Hann fullyrðir hér í skriflegu svari hver réttur þingmanna sé. Nefndadeild Alþingis og lögfræðingarnir þar hafa vísað á bug þeim skilningi sem er í svarinu. Það er rangt farið með í þessu skriflega svari. Síðan er talað um að ekki sé heimild til að birta verðið á jörðunum. Hæstv. ráðherra hefur komið hér og skýrt hvers vegna það er. Hann hefur ekki beint skýringar á því en hann þarf að finna þær.

Hér hafa verið gefnar rangar og villandi upplýsingar og ég velti fyrir mér hvort ástæðan fyrir því að hæstv. ráðherra vill ekki upplýsa um sölu jarða undanfarin fimm ár geti verið sú að í ríkisreikningi, þegar maður kíkir á á hvað þessar jarðir hafa verið seldar, er verið að selja ríkisjarðir á undir 1 millj. kr., bújarðir í eigu ríkisins. Algengt verð er í kringum 1 millj. og kannski upp í 2--3 millj. fyrir bújarðir á ágætum stöðum á landinu.

Herra forseti. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra svari þeim fyrirspurnum sem beðið hefur verið um og það verði upplýst hér hvað þessar jarðir hafa verið seldar á. Hluti af upplýsingunum sem ég spurði um er í ríkisreikningi. Aðrar upplýsingar eru þar ekki og ég held að það sé best fyrir alla aðila að þessar upplýsingar komi upp á borðið og hæstv. ráðherra skýri hvers vegna hann svarar röngu til í skriflegu svari og svarar síðan ekki til um upplýsingar sem liggja fyrir.