Skipan opinberra framkvæmda

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 16:44:06 (1437)

2001-11-12 16:44:06# 127. lþ. 26.12 fundur 6. mál: #A skipan opinberra framkvæmda# (eftirlit, Framkvæmdasýslan, samstarfsnefnd o.fl.) frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[16:44]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Það frv. sem hér er til umræðu um breytingu á lögum um skipan opinberra framkvæmda, nr. 84/2001, er mjög nauðsynlegt frv. til að auka eftirlit og virkt aðhald varðandi opinberar framkvæmdir.

Segja má að þetta frv. sé viðamikið nauðsynjamál til þess að byggja brú yfir þá gjá sem virðist hafa verið til staðar varðandi framkvæmdir á vegum ríkisins. Það má vera ljóst samkvæmt athugasemdum, m.a. frá Ríkisendurskoðun, varðandi t.d. Þjóðmenningarhús, að nauðsynlegt er að veita aðhald við opinberar framkvæmdir. Hverjum og einum má vera ljóst að of mikið er um mistök varðandi ákvarðanir og eftirlit og svo einnig við beinar framkvæmdir, þar hafa orðið mistök.

[16:45]

Til að nefna dæmi hafa menn reist veggi og brotið þá síðan niður. Hvers vegna? Vegna þess að byggingar hafa verið framkvæmdar eftir uppdráttum og arkitektinn ekki verið kominn með endanlegar teikningar, þess vegna hefur farið svo sem ég lýsti hér.

Við þekkjum einnig dæmi um að gleymst hefur að gera ráð fyrir raflögnum og fjölmörgu öðru sem fylgir öllum nútímaverkáætlunum varðandi byggingar.

Ég tel, herra forseti, að það sé óviðunandi fyrir hv. Alþingi að taka við byggingum, hreinlega taka við byggingum, þar sem kostnaður vegna breytinga á gömlu húsi er meiri á fermetra en ef byggt væri nýtt.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur farið yfir greinar frv. og skýringar á þeim og ég get engu þar við bætt. En ég vil í tilefni af flutningi þessa máls geta nokkurra minnis\-punkta sem lúta að og tengjast umræðu um þau mál sem ég hef m.a. nefnt hér, framkvæmdir við Þjóðmenningarhús og Austurstræti 8--10. Ég byggi minnispunktana á umræðu sem ég hef tekið þátt í um þessi mál og síðan á viðræðum við Ríkisendurskoðun.

Ég tel að kannski megi ekki fara of langt í þessi mál að svo stöddu vegna þess að enn hefur hv. fjárln. ekki afgreitt athugasemdir sínar um Austurstræti 8--10. Það mál hefur legið fyrir í nefndinni í níu mánuði, heilan meðgöngutíma, þannig að það ætti nú að vera hægt að koma sér saman um niðurstöðu um málið. Samþykkt var í hv. fjárln. að senda frá sér álit varðandi þetta verkefni og það er til þess að reyna að koma í veg fyrir mistök eins og virðast hafa gerst þar æ ofan í æ. Meðal annars slitnaði upp úr samstarfi á milli arkitekta en ekki var reynt að bæta úr því heldur var einum arkitekt falið að leysa öll verkefni sem þar voru og þess vegna fór sem fór og ég lýsti fyrr.

Ekki var heldur hægt að fara að tillögu Framkvæmdasýslu ríkisins í sambandi við arkitekt. Og það er ljóst af minnis\-punktum mínum, eins og ég kom að hér áðan, að teikningar hreinlega vantaði. Það sem ég er að nefna er að sjálfsögðu alvarlegur áfellisdómur.

Þess vegna er frv. sem hér er komið fram mikið nauðsynjaverk og að sjálfsögðu hlýtur það að vera viðamikið. Ég tek undir með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og veit að fjmrn. hefur hert reglur varðandi opinberar framkvæmdir. Ég efast um að það sem þar var gert sé nægjanlegt og ég tel nauðsynlegt að fara yfir málið í heild sinni og fara yfir lög og skipan opinberra framkvæmda. Það er nauðsynjamál.

Í umræðum um það hús sem ég nefndi áðan, Austurstræti 8--10, hafa ásakanir auðsjáanlega gengið milli manna. Fyrsta kostnaðaráætlun var um 30 millj. og á móti því að 95 millj. voru á einum tíma komnar upp, sem sagt 65 millj. fram úr áætlun og þá fór allt í háaloft á milli manna og enginn vissi hvað hafði gerst. Slíkt getur ekki gengið. Endanleg kostnaðar --- ja, það er best að kalla það ágiskun upp á u.þ.b. 133 millj. á móti 30 millj. upphaflegri kostnaðaráætlun. Það eru 103 millj. fram úr áætlun. Það væri nú gaman að hafa það í prósentum svona til að skemmta fólki.

Ég tel að slík mistök megi aldrei koma fyrir aftur. Ég trúi því og treysti að menn hafi þess vegna eða út af þessu lært á erfiða veginn eða kannski heitir þetta að fara þrönga veginn, að menn hafi lært af þeim mistökum sem þarna voru gerð.

Ég hef einnig eins og ég sagði áðan byggt mál mitt á minnispunktum varðandi umræður um Þjóðmenningarhúsið. Við það mál voru gerðar alvarlegar athugasemdir. Málið hefur verið rætt hér, en engu að síður er nauðsynlegt að rifja það upp vegna þess frv. sem verið er að flytja nú sem styður nauðsyn þess að það sé tekið fyrir og farið yfir það.

Það sem gerðist m.a. varðandi Þjóðmenningarhús var að þar hafði eftirlitsaðili ekki umboð til að samþykkja breytingar, ekki breytingar sem leiddu til kostnaðarauka. Þær breytingar hefði verkkaupi átt að samþykkja sérstaklega. Í þeim tilvikum hefði bæði arkitekt og verktaka átt að vera þetta ljóst. Það sem gerðist í því dæmi var að ekki virðist í raun hafa verið neitt virkt kostnaðareftirlit til staðar.

Og það er lýsandi, svo ég vitni, með leyfi forseta, í skýrslu Ríkisendurskoðunar:

,,Það er lýsandi fyrir það ástand sem ríkti á sama tíma og fjármunir til verksins voru uppurnir.``

Ég held að rétt sé að minna einnig á að kostnaðareftirlit sem beindist að réttmæti reikninga var ófullnægjandi. Það var nokkuð til í því að athugasemdir við reikninga sem kröfðust nánari skýringa höfðu ekki borist verktaka þó að margir mánuðir væru liðnir frá útgáfu þeirra og frestur til að gera athugasemdir löngu liðinn. Þetta eru alvarleg mál. Þetta eru alvarleg mál sem snúa að hinu opinbera og þess vegna er nauðsynlegt að breyta lögum um opinberar framkvæmdir, þess vegna er nauðsynlegt að herða eftirlit og þess vegna er nauðsynlegt að menn sjái fyrir, rétt eins og bóndinn. Áður en bóndinn hefur framkvæmdir við byggingar þá veit hann fyrir fram hvað hver eining kostar eða hvert hús sem hann þarf að byggja og hann sættir sig ekki við það að kostnaðurinn fari umfram það sem hann hefur sjálfur ákvarðað, að sjálfsögðu með tilliti til verðlagsbreytinga sem til koma. Þetta eru einföld dæmi.

Maðurinn sem byggir húsið sitt sjálfur gerir sér dæmið ljóst áður en hann hefur byggingu hvað byggingin muni kosta og hann hefur sjálfur eftirlit með því að það fari ekki fram úr þeim áætlunum sem hann gerir. Þetta er nákvæmlega það hlutverk sem eftirlitsaðilum, framkvæmdaraðilum, er falið fyrir hönd ríkisins. Og ef þær reglur og vinnulag sem lagt er fyrir dugar ekki, þá þarf að skerpa á umræðunni og bæta úr því sem aflaga hefur farið, eins og bent hefur verið á.

Virðulegur forseti. Ég vil vitna enn til Ríkisendurskoðunar þar sem segir um lög og önnur fyrirmæli. Í lögum nr. 63/1970, um skipan opinberra framkvæmda, með síðari breytingum, kemur fram hvernig skal að opinberum framkvæmdum staðið. Í handbók um opinberar framkvæmdir sem fjmrn. gaf út 1991 eru þau lög skýrð nánar. Það skortir því ekkert á að því er mér sýnist að mjög ítarleg fyrirmæli og leiðbeiningar liggi fyrir um hvernig staðið skuli að opinberum framkvæmdum hér á landi. En þrátt fyrir það virðist þetta hafa brugðist. Virðulegur forseti. Þess vegna er verið að flytja þetta mál sem ég er að ræða um á almennan máta.

Eins og ég sagði áðan hefur hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gert grein fyrir hverri einustu grein frv. og farið yfir skýringar sem þetta mál varðar og ég ítreka það að ég get ekki bætt þar um.

En ég vil enn ræða þetta mál nokkuð. Hver er verkkaupi? Í þeim tilvikum sem við ræðum slíkt á hinu háa Alþingi, þá er auðvitað um ríkið að ræða. Það er ríkið sem tekur ákvörðun og það er ríkið sem ber ábyrgð á framkvæmd. Og hverjir eru nú ríkið? Það er viðkomandi ráðuneyti og þeir fulltrúar sem í hlut eiga í hverju tilviki fyrir sig sem bera ábyrgð á framkvæmd. Það eru sem sagt ráðuneytin og/eða verkkaupi og þeir aðilar sem ráðuneyti felur framkvæmd verksins sem eiga að sjá til þess að lögum sé framfylgt. Lög kveða skýrt á um að ekki skuli hefja verklega framkvæmd fyrr en veitt hefur verið til þess heimild á fjárlögum.

Virðulegur forseti. Þetta er meginástæðan fyrir því að undirritaður sem sæti á í hv. fjárln. kveður sér hljóðs og ræðir þessi mál. Það er einmitt þarna sem ríkinu eða fjmrn. hefur skjöplast. Þeir sem bera ábyrgð á framkvæmdum hafa ekki sótt eftir heimild á fjárlögum til að ráðstafa þeim fjármunum sem þeir hafa notað. Og það er brot á lögum. Þess vegna, virðulegur forseti, er ég að reyna að leggja þunga í þetta mál og á þá ástæðu að við þingmenn Samfylkingarinnar flytjum þetta viðamikla mál sem er að mínu mati mikilsvert.

Þegar verkefnisáætlun liggur fyrir á að lýsa verkskiptingu vegna stjórnunar, ákvarðanatöku og boðleiðum í verkum. Í báðum þeim tilvikum sem ég hef nefnt og lúta að eða snerta Alþingi, þ.e. Þjóðmenningarhús og Austurstræti 8--10, hafa menn alvarlega skriplað á skötu, eins og sagt er, því þeir hafa ekki athugað sinn gang og farið langt umfram allar boðleiðir, allar lagasetningar og síðan heimildir til notkunar á fjármunum.

Ég vil segja, virðulegur forseti, að verk af slíkri stærðargráðu sem ég hef verið að fjalla um á að vinna með útboði. Það á að vinna þessi verk samkvæmt útboðum. Það gengur ekki þegar um framkvæmdir er að ræða sem fara yfir á annað hundrað milljónir að gerðir séu bara samningar um slík verk. Það er algjört lágmark að verk af þeirri stærðargráðu séu boðin út. Ég get ímyndað mér að nauðsyn sé á spennutímum að ganga til samninga um einstök verk upp á einhverja tiltekna upphæð, en almennt á að vera við lýði sú regla að bjóða út opinberar framkvæmdir skilyrðislaust. Þannig fá menn bestu yfirsýn og hagstæðustu niðurstöðu mála.

Virðulegur forseti. Ég held að nauðsynlegt sé að taka frv. til rækilegrar skoðunar og það væri nú ágætt fyrir hv. ríkisstjórn að lesa þetta mál yfir, athuga hvar götin eru og reyna þá ef þeir ekki vilja sjá frv. í framkvæmd, að bæta úr helstu ágöllum sem eru vegna framkvæmda á vegum hins opinbera.