Skipan opinberra framkvæmda

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 17:02:17 (1438)

2001-11-12 17:02:17# 127. lþ. 26.12 fundur 6. mál: #A skipan opinberra framkvæmda# (eftirlit, Framkvæmdasýslan, samstarfsnefnd o.fl.) frv., GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[17:02]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. fór nokkrum orðum um þá stóru framkvæmd sem Alþingi stóð fyrir á síðasta ári, Austurstræti 8--10. Það er vissulega rétt sem kom fram hjá honum að þar fór margt úrskeiðis og var gert með öðrum hætti en hefði sjálfsagt átt að gera. Það er nú bara svo að þegar stofnun eins og Alþingi fer út í svona framkvæmd, stendur hún frammi fyrir því að henni ber að láta Framkvæmdasýslu ríkisins sjá um verkið. Það eru einfaldlega lög í þessu landi. Þeir sem hér halda á málum, forsn. Alþingis, fjármálastjóri og aðrir sem eru taldir bera ábyrgð á þessu og bera sjálfsagt ábyrgðina, hafa náttúrlega ekkert vit á húsbyggingum, hvorki sá sem hér stendur né aðrir sem þennan hóp skipa. Og þegar svo er treysta menn eðlilega á þar til bærar stofnanir, að þær standi rétt að málum. Þarna fór mjög margt úrskeiðis. Ríkisendurskoðun hefur gert úttekt á þessu verki og hvað þar fór úr böndunum og sú skýrsla er virkilega til þess að læra af. Menn eiga auðvitað að viðurkenna mistökin og læra af þeim og það tel ég að forsn. Alþingis hafi gert, því núna þegar við réðumst í fyrstu nýbyggingu Alþingis, ég held í hátt í heila öld, Skálann sem hér er að rísa við hliðina á húsinu, ákváðum við að ráða okkur verkfræðing í hlutastarf, mjög færan verkfræðing sem er þekktur fyrir mikla nákvæmni í vinnubrögðum. Við sjáum það nú þegar og erum sammála um það í forsn. að þessi maður er að vinna afskaplega gott verk. Við hefðum betur gert þetta í fyrra. En við vorum andvaralausir og treystum á þá stofnun sem við töldum að ætti að fjalla um þetta. Ég vildi láta það koma fram hér að nú stöndum við öðruvísi að þessu og við sjáum það nú þegar að þetta er í allt öðrum farvegi en í fyrra. Ég kvíði því ekki að sýna uppgjörið á Skálanum þegar byggingu hans lýkur á næsta ári.