Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 17:20:22 (1445)

2001-11-12 17:20:22# 127. lþ. 26.13 fundur 8. mál: #A stækkun friðlandsins í Þjórsárverum# þál., Flm. KolH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[17:20]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegur forseti. Hér mæli ég fyrir tillögu til þál. um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum sem flutt er af öllum þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Hljóðar tillagan þannig, eins og fram kemur á þskj. 8 sem dreift hefur verið á Alþingi:

,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir því að mörkum friðlandsins í Þjórsárverum verði breytt og það stækkað þannig að sem mest af gróðurlendi svæðisins lendi innan friðlýsingarmarkanna. Einnig að áætlun verði gerð um friðun Þjórsár frá mörkum friðlandsins í Þjórsárverum til suðurs að Sultartangalóni.``

Tilurð þessarar tillögu, herra forseti, á sér nokkurn aðdraganda. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs hélt opinn þingflokksfund í Þjórsárverum laugardaginn 21. júlí sl. Á þeim fundi var samþykkt svohljóðandi ályktun, með leyfi forseta:

,,Opinn fundur þingflokks Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, haldinn í Þjórsárverum, telur að vernda eigi Þjórsárver og umhverfi þeirra en ekki spilla þessu einstaka, friðaða landsvæði og umhverfi þess með frekari virkjunum. Fundurinn tekur undir tillögur sem fram hafa komið um að friðlandið verði stækkað og mörk þess dregin þannig að sem mest af gróðurlendi svæðisins lendi innan friðlýsingarmarkanna. Fundurinn mótmælir þess vegna harðlega framkomnum hugmyndum um Norðlingaölduveitu og þeirri skerðingu friðlandsins í Þjórsárverum sem af henni hlytist. Í stað þess að hrófla við Þjórsárverum frekar en orðið er þarf að endurmeta á faglegum forsendum hvar eðlileg mörk friðlandsins eiga að vera og færa þau út í samræmi við það. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs mun í upphafi þings beita sér fyrir því að þegar verði hafist handa í þessu máli.``

Þar er nú komið sögu, herra forseti, að þessi þáltill. er lögð fram og fyrir henni mælt.

Þjórsárver eru svo sem kunnugt er sú gróðurvin á hálendi Íslands sem talin er hvað dýrmætust. Kemur þar margt til. Landslag er þar stórbrotið, vatnafarið einstaklega öflugur þáttur í lífríkinu og er vistkerfi veranna óvenju tegundaríkt og mikilvægt til viðhalds á mörgum tegundum dýra og plantna.

Í Þjórsárverum er að finna fjölbreyttar búsvæðagerðir, þar eru rústir, sífreri og flæðiengi. Verin eru vel afmörkuð heild og það svæði á Íslandi þar sem áhrifa manna gætir hvað minnst. Þau eru gífurlega mikilvæg varpstöð fyrir heiðargæsastofninn og fleiri fugla. Gróðursamfélagið er afar fjölbreytt, þar hafa fundist um 183 tegundir háplantna, eða meira en þriðjungur íslensku flórunnar, 225 mosategundir, eða um 38% íslensku mosaflórunnar, og heildarfjöldi fléttna sem greindur hefur verið í Þjórsárverum er um 148 tegundir. Í Þjórsárverum er að finna síðustu leifar gróðurs sem áður mun hafa þakið mun stærra svæði af öræfunum, gróðurs sem sums staðar teygir sig upp í 1.000--1.100 metra hæð yfir sjávarmáli í hlíðum Arnarfells hins mikla og Arnarfells hins litla.

Herra forseti. Þjórsárver njóta í dag sérstakrar verndar bæði sem friðland og sem Ramsar-svæði, sem staðfestir sérstöðu og mikilvægi þess sem votlendis á heimsvísu. Til Þjórsárverafriðlands var stofnað árið 1981 með heimild í lögum um náttúruvernd. Þá höfðu um nokkurt skeið verið uppi hugmyndir um stórt uppistöðulón í verunum í allt að 593,5 metra hæð yfir sjávarmáli. Þær hugmyndir mættu strax talsverðri andstöðu. Til marks um það er eftirfarandi ályktun almenns sveitarfundar Gnúpverja, sem haldinn var í Árnesi 17. mars 1972. Fyrir rétt tæpum 30 árum.

Þar var lýst yfir eindreginni andstöðu við rafvæðingaráætlanir þar sem gert er ráð fyrir myndun uppistöðulóns í Þjórsárverum. Þess utan vakti fundurinn athygli á nokkrum mikilvægum atriðum varðandi Þjórsárver. Ég fer ekki nánar út í þau atriði hér, herra forseti, en vísa til greinargerðar sem prentuð er á þskj. 8 með tillögunni. Ég minni einungis á að þessi mótmæli Gnúpverja voru bókuð fyrir tæpum 30 árum, áður en virkjanaframkvæmdir voru hafnar þarna að nokkru marki.

Á þessum tíma var náttúruvernd á Íslandi ekki fyrirferðarmikil í dægumálaumræðunni og ekki margir sem þekktu þá gersemi sem kúrði í miðri sandauðn miðhálendisins uppi undir Hofsjökli umgirt jökulkvíslum og erfið aðkomu, nema kannski fyrir fuglinn fljúgandi. Það munu helst hafa verið fjallmenn, sem smalað höfðu öræfin upp undir jökla, sem þekktu leyndardóm veranna. Stærsti hluti Þjórsárvera er á afrétti Gnúpverja og þekktar eru sagnir fjallmanna sem sneru aftur af fjalli með leyndardóminn í hjartanu og ævintýrið í augunum. Þetta mun vera drjúgur hluti ástæðunnar fyrir andstöðu Gnúpverja við hugmyndir um miðlunarlón í Þjórsárverum. Umræðan um náttúruverndargildi veranna og ásetningur Landsvirkjunar um miðlunarlón og virkjanir á efra vatnasviði Þjórsár leiddu síðan til þess eins og áður sagði, herra forseti, að Þjórsárver voru friðlýst með auglýsingu í desember 1981. Í friðlýsingunni var engu að síður gert ráð fyrir þeim möguleika að uppistöðulóni yrði valinn staður í námunda við hið friðlýsta svæði, en þó var tekin afgerandi ákvörðun í friðlýsingunni varðandi stærð mögulegs lóns. Þannig var verunum forðað frá algerri eyðileggingu með friðlýsingunni og komið í veg fyrir þau áform Landsvirkjunar að sökkva þeim í heilu lagi undir 200 km2 miðlunarlón eins og upphaflega hafði verið áformað. Hins vegar gerði friðlýsingin ráð fyrir undanþágu frá ákvæðum friðlýsingarinnar ,,til þess að gera uppistöðulón með stíflu við Norðlingaöldu í allt að 581 m yfir sjó enda sýni rannsóknir, eins og segir í friðlýsingunni, með leyfi herra forseta: ,,að slík lónsmyndun sé framkvæmanleg án þess að náttúruverndargildi Þjórsárvera rýrni óhæfilega að mati Náttúruverndar ríkisins.`` Þetta kom þó ekki í veg fyrir að heimilaðar yrðu veitur austanvert í verunum, austan Þjórsár; Kvíslarveitur 1.--5. áfangi eru orðnir raunveruleiki. Þannig voru upptakakvíslir Þjórsár af Sprengisandi og austurþverár hennar teknar í áföngum og þeim veitt í Þórisvatn. Og nú er komið stórt lón, Kvíslavötn, sem er um 30 km2 og stíflur í þverár Þjórsár, Eyvindaverskvísl, Þúfuverskvísl og í Þjórsá sjálfa ofan Hreysis. Þessar aðgerðir, herra forseti, hafa þegar valdið talsverðum spjöllum á Þjórsárverum, 6 km2 af grónu landi hefur verið sökkt undir vatn, auk þess sem umtalsvert landsvæði hefur farið undir veituskurði. Þá hefur meðalrennsli Þjórsár minnkað um allt að 40%, sem spillt hefur ýmsum einstökum fossum í Þjórsá, eins og Kjálkaversfossi, Dynk og Gljúfurleitarfossi. Ekki er vitað hvort þessum spjöllum á verunum austan Þjórsár og á Þjórsá sjálfri er lokið því enn lúra, herra forseti, áform um 6. áfanga Kvíslaveitna á borðum Landsvirkjunar.

Á síðustu mánuði hefur síðan umræðan um lón við Norðlingaöldu blossað upp enn á ný og nú í tengslum við orkuöflun fyrir væntanlega stækkun álbræðslu Norðuráls á Grundartanga. En nú nýverið samþykkti Skipulagsstofnun matsáætlun Landsvirkjunar með nokkrum athugasemdum þó, matsáætlun um Norðlingaölduveitu sunnan Hofsjökuls. Undirbúningur fyrir umhverfismat þessarar miðlunar er því í fullum gangi.

En til að gera langa sögu stutta þá vil ég einungis nefna til sögunnar Þjórsárveranefnd og samskipti Þjórsárveranefndar og Landsvirkjunar. Þjórsárveranefnd er ráðgjafarnefnd Náttúruverndar ríkisins varðandi málefni Þjórsárverafriðlandsins samkvæmt friðlýsingunni og hefur hún í 20 ár átt í viðræðum við Landsvirkjun um mögulegar lónhæðir Norðlingaölduvirkjunar væntanlegrar.

Á fundi Þjórsárveranefndar 3. maí sl. var hafnað áformum um 6. áfanga Kvíslaveitu og einnig var hafnað á þeim fundi nefndarinnar hugmyndum um lón sem væru hærri en 575 m yfir sjávarmáli. Þjórsárveranefnd samþykkti hins vegar að fresta ákvörðun um lón í 575 m yfir sjávarmáli, þar sem hluti nefndarmanna taldi nauðsynlegt að fá fyllri úttekt á áhrifum þeirrar lónshæðar á náttúruverndargildi Þjórsárvera.

Sú úttekt hefur svo sem verið unnin og verið lögð fram í Þjórsárveranefnd en ekki hefur komið til frekari kasta Þjórsárveranefndar í þessu máli en tekur hún að sjálfsögðu fullan þátt í matsferlinu sem, eins og áður greinir, herra forseti, er þegar hafið. Hins vegar er alveg ljóst að Þjórsárveranefnd hvetur til mikillar varkárni í þessum málum öllum.

[17:30]

Það verður einnig að teljast eðlilegt að Gnúpverjar séu tregir til að fórna meiru en orðið er af Þjórsárverum. Skal nú getið um fjölmennan sveitarfund, ekki þann sem haldinn var 1972, heldur var haldinn annar sveitarfundur, fjölmennur, í Árnesi þann 24. maí sl. Sá fundur lýsti eindreginni andstöðu við Norðlingaölduveitu og aðrar fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir í Þjórsárverum og efri hluta Þjórsár. Ekki nóg með það heldur samþykkti fundurinn einnig að Þjórsárver og efri hluta Þjórsár bæri að vernda sem einstætt vistkerfi og landslagsheild og minnti fundurinn einnig á að framkvæmdir á þessu svæði yrðu ekki aftur teknar. Þá ítrekaði fundurinn líka þessa frægu ályktun sem ég gat um fyrr í ræðu minni, frá fundinum í Árnesi í mars 1972.

Verði gert lón, herra forseti, við Norðlingaöldu fara verðmæt gróðursvæði í Eyvafeni, Hnífárbotnum og neðsta hluta Tjarnavers á kaf. 5--15 m breitt öldurof yrði að öllum líkindum á 3 km belti í Tjarnaveri og Sóleyjarhöfða og grónum svæðum vestan Þjórsár.

Þá má sömuleiðis lesa, herra forseti, möguleg umhverfisáhrif af slíkri framkvæmd í greinargerð sem fylgir þessari tillögu. Þar má enn fremur kynna sér að þær mótvægisaðgerðir sem hafa verið nefndar varðandi þessi mál gætu að öllum líkindum eingöngu falist í fyrirbyggjandi aðgerðum, svo sem að reyna að hindra frekari eyðileggingu, sem alls er óvíst um árangur af, eða aðgerðum til að bæta fyrir skaðann, svo sem að reyna að endurheimta gróðursvæði annars staðar. En telja má nær útilokað að hægt sé að búa til svæði sem væri sambærilegt við Þjórsárver, herra forseti. Þá eru ótalin veruleg áhrif sem lón gæti haft á fugla- og dýralíf í Þjórsárverum.

Hér að framan hefur verið talsvert gert úr mótmælum Gnúpverja í þessum efnum og enn skal hér tíundað í lok ræðu minnar, herra forseti, að fyrr á þessu ári var stofnaður í Gnúpverjahreppi formlegur hópur áhugafólks um verndun Þjórsárvera. Hópurinn hefur farið þess á leit við Náttúruvernd ríkisins að skoðaðir verði möguleikar á stækkun friðlandsins og einnig kannaðir möguleikar á friðlýsingu Þjórsár frá friðlandsmörkunum að Sultartangalóni. Það má segja, herra forseti, að þessi tillaga sem hér er talað fyrir dragi dám af þessari hugmynd Gnúpverja, við sækjum á sömu mið og lýsum á þennan hátt eindregnum stuðningi okkar við vilja heimamanna í þessum efnum. Að þeim orðum sögðum legg ég til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til seinni umræðu og hv. umhvn.