Stækkun friðlandsins í Þjórsárverum

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 17:38:21 (1447)

2001-11-12 17:38:21# 127. lþ. 26.13 fundur 8. mál: #A stækkun friðlandsins í Þjórsárverum# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[17:38]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Aðeins fáein orð í viðbót um þessa tillögu okkar um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum. Ég þarf ekki að bæta neinu við framsöguræðu hv. 1. flm.

Það sem mig langar að taka hérna undir er sömuleiðis í raun og veru fáránleiki þess að þessi virkjunarkostur, þ.e. Norðlingaöldulón og miðlun úr Þjórsárverunum yfir í Kvíslarveitur, skuli yfir höfuð vera uppi á borðum við núverandi aðstæður. Það segir í raun og veru allt sem segja þarf um þá virðingu sem stjórnvöld bera fyrir sjálfum sér, að láta þessa virkjun, sem sannarlega raskar sjálfum Þjórsárverum í talsverðum mæli, vera uppi á borðum samtímis því sem verið er að vinna að fyrstu áfangaskýrslunni út úr svonefndri rammaáætlun. Það er auðvitað alveg dæmalaust og í raun og veru erfitt að taka þessa svokölluðu rammaáætlun alvarlega að því leyti til að út úr henni eru tíndir jafnharðan þeir virkjunarkostir sem stjórnvöldum þóknast að hefja undirbúning á hverju sinni. Dæmi eru Kárahnjúkavirkjun og svo auðvitað þessi virkjun hér.

Herra forseti. Ég held að flestir mundu fallast á að þessi virkjun, ef við tökum hana sem slíka, með því lægra yfirborði lónsins sem nú er talað um, 575 m eða þar fyrir neðan, er ekkert sérstaklega hagkvæmur eða merkur virkjunarkostur nema síður sé enda færa fáir fram þau rök að sú sé aðalástæða þess að þetta er núna í skoðun. Nei, það er hins vegar einhvers konar heimatilbúin tímanauð sem er borin á borð fyrir menn með þeim rökum að segja: Ja, þetta er bara því miður eini virkjunarkosturinn sem gæti orðið tilbúinn nógu snemma í stækkunina á Norðuráli. Og þá eigum við að kaupa það, herra forseti, að það sé svo illa komið hjá okkur að þó að það kosti að Þjórsárverum verði að hluta til spillt verði bara að hafa það því það standi því miður svo illa á, að eigi að skaffa rafmagnið í tæka tíð, miðað við einhver heimatilbúin tímamörk, verði þetta bara svona að vera.

Er frambærilegt, herra forseti, að stilla málunum svona upp? Nei, auðvitað er það ekki. Og það er aldeilis fráleitt að reyna að halda því fram að ekki séu nægir kostir í boði, miklu fýsilegri frá umhverfislegu sjónarmiði séð, sem gætu innan tiltölulega hóflegra tímamarka skaffað sambærilega orku og þá sem þarna kemur til sögunnar.

Ég hafna algjörlega, herra forseti, þeim rökum sem menn hafa notað til þess að hafa þennan virkjunarkost uppi á borðum. Hann á ekki að vera þar og í raun og veru á að afskrifa hann, samanber þessa tillögu um að stækka mörk friðlandsins. Í öllu falli er með öllu óframbærilegt að halda til streitu með þeim hætti sem gert er nú um stundir þessari virkjun með uppistöðulóni við Norðlingaöldu.

Herra forseti. Ég held að flestir ættu að geta fallist á að hún Þjórsá sé að verða búin að skila sínu fyrir þjóðarbúið. Úr því að búið er að raska einu vatnsfalli hvort sem er og náttúrulegum rennslisháttum þess er jafngott að þá sé virkjað úr því það afl sem tiltækt er án þess að valda frekari náttúruspjöllum og láta eitthvað annað í friði í staðinn. Því er nú reyndar ekki að heilsa, að mönnum sé nokkuð heilagt í þessum efnum.

Virkjanir í neðri hluta Þjórsár eru á borðum og komi þær til sögunnar verður leitun að vatnsfalli sem búið er að taka jafnhressilega allt afl út úr. Það má þá heita að nánast hver einasti metri í fallhæð sé nýttur frá Þórisvatni og niður undir sjó ef Urriðafoss verður tekinn með þeim virkjunum sem ýmist eru þegar komnar eða í undirbúningi.

Ekki verður hægt að segja í sjálfu sér að mikið verði skilið út undan þó að efri hluti Þjórsár, þar með talið og ekki síst Þjórsárverin og fossarnir í efsta hluta Þjórsár niður að Sultartangalóni, yrði friðuð eins og heimamenn hafa farið fram á. Þessir fossar eru hluti af einstakri náttúruheild sem svo sannarlega er ástæða til að slá skjaldborg um það sem eftir er. Ég hygg, herra forseti, að þeir sem heimsækja þetta svæði og verða svo gæfusamir, liggur mér við að segja, að fá að njóta Þjórsárvera og nágrennis komist nú tæpast ósnortnir til baka úr slíkum leiðangri, jafnvel þótt þeir væru svo óheppnir að lenda þar í þoku eins og hent hefur mann og annan sem ætlar að kynna sér náttúrugersemarnar. Auðvitað er upplifun manna af slíkum hlutum misjöfn eins og kunnugt er, og ótrúlegasta fólk kemur á ótrúlegustu staði án þess að þykja þeir sérstaklega merkilegir. En ég hygg að flestir geti verið sammála um það, hvort sem þeir hafa sjálfir upplifað Þjórsárver eða ekki, að hér sé um algjörlega einstakt svæði að ræða.

Og það er sannarlega illa komið, herra forseti, í þessu landi ef menn ætla að nota heimatilbúin nauðhyggjurök af því tagi sem nú eru uppi á borðum til að selja mönnum það að þessi virkjunarkostur eigi að vera á fullri ferð í undirbúningi sem hann því miður er samanber vinnu Landsvirkjunar að mati á umhverfisáhrifum. Það er augljóslega full alvara þar á bak við. Landsvirkjun er full alvara og hún ætlar að ráðast í þennan virkjunarkost ef hún kemst upp með það. Það á hún að sjálfsögðu ekki að gera, og ekki stjórnvöld sem reka þar trippin. Burt séð frá deilum um stóriðju og þörf fyrir þessa orku er alltént borðleggjandi að það eru margir aðrir sambærilegir virkjunarkostir í afli eða stærð sem eru miklu fýsilegri. Ég bendi á þann nærtæka möguleika að auka sem þessu nemur framleiðslu á jarðhitasvæðum sem þegar er búið að beisla og hægt er að auka framleiðslu á með mjög litlum viðbótarkostnaði og lítilli viðbótarröskun á svæðum eins og Nesjavöllum, við Kröflu og á Reykjanesi.