Heilsuvernd í framhaldsskólum

Mánudaginn 12. nóvember 2001, kl. 19:03:29 (1457)

2001-11-12 19:03:29# 127. lþ. 26.19 fundur 37. mál: #A heilsuvernd í framhaldsskólum# þál., KF
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 127. lþ.

[19:03]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Sem einn af meðflm. tillögunnar vil ég taka undir hvert orð sem hv. 1. flm., Ásta Möller, viðhafði hér og undirstrika mikilvægi þess að tekið sé á heilsuvernd framhaldsskólanema í samhengi því að eins og kemur fram í grg. með tillögunni fær heilsufar unglinga gjarnan litla athygli. Fólk telur almennt að ungt fólk sé hraust og þurfi ekki heilbrigðisþjónustu. Fyrri ræðumaður benti mjög skilmerkilega á að svo er ekki endilega.

Mikilvægt er á þeim tíma ævinnar þegar fólk er í framhaldsskóla að það læri að taka ábyrgð á eigin lífi og þar með eigin heilsufari. Og forvarnir sem eru hið gullna lykilorð í dag geta kristallast mjög vel í því starfi sem hægt er að vinna með ungu fólki í framhaldsskólunum.

Í máli hv. þm. Ástu Möller kom fram að skólalæknar eru í nokkrum framhaldsskólum, þar á meðal í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ, Verslunarskóla Íslands reyndar líka og ég var sjálf skólalæknir í Menntaskólanum í Reykjavík í mörg ár. Þau atriði sem talin eru upp í grg., þ.e. næring, ótímabærar þunganir, slys, ofbeldi, reykingar, áfengi og önnur vímuefni og geðheilsa segja okkur að þetta eru allt saman stórir og mikilvægir þættir í lífi ungs fólks og ég vona eins og fyrri ræðumaður að þessi þáltill. fái verðuga umfjöllun í heilbrn. og skili sér aftur inn í þingsali til afgreiðslu.