Erlent vinnuafl

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 13:45:13 (1465)

2001-11-13 13:45:13# 127. lþ. 27.94 fundur 134#B erlent vinnuafl# (umræður utan dagskrár), félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[13:45]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Útlendingaeftirlitinu bárust nýlega upplýsingar um að ólöglegir erlendir starfsmenn væru við vinnu við byggingu í fjölbýlishúsi í Kópavogi. Lögreglunni í Kópavogi var gert viðvart og hefur hún tekið málið til rannsóknar. Útlendingarnir sem allir koma frá Eystrasaltslöndunum komu til landsins sem ferðamenn að undirlagi fyrirtækis sem nú sætir rannsókn og mun fyrirtækið hafa leigt þá út til verktaka sem stóðu að byggingu hússins. Verið er m.a. að skoða málið út frá þætti atvinnurekanda, hvaða greiðslur hafi átt sér stað milli aðila, aðbúnað o.s.frv. Fyrir liggur að mennirnir hafa farseðil til baka.

Síðasta vor varð sama fyrirtæki uppvíst að því að vera með ólöglegt vinnuafl. Lögregla fór á vettvangi og var starfsemi stöðvuð. Vinnumálastofnun barst ekki skýrsla varðandi það mál en ljóst var að ekki væri unnt að beita fyrirtækið refsingu í það sinn en útlendingarnir fóru úr landi. Í kjölfarið komu eigendur fyrirtækisins til viðtals hjá Vinnumálastofnun. Þeir kváðu málið á misskilningi byggt. Þeir teldu sig ekki hafa þurft atvinnuleyfi en hugðust þá bæta úr því og sækja um leyfi en þær umsóknir bárust aldrei.

Áður en þessi mál komu upp eða þann 24. apríl sl. fékk sama fyrirtæki gefið út eitt atvinnuleyfi vegna rafvirkja sem starfaði hjá öðru íslensku fyrirtæki og það leyfi gildir til 1. febrúar 2002. Er það eina atvinnuleyfið sem veitt hefur verið til þessa fyrirtækis.

Brot gegn lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 133/1944, varða þann sektum er hefur útlending í vinnu án leyfis, svo og útlending er starfar án leyfis, sbr. 15. gr. Mál út af brotum gegn lögunum skulu sæta opinberri meðferð, sbr. 18. gr. Slík mál eru því ekki á forræði Vinnumálastofnunar eða félmrn. þó að við látum okkur málið varða. Útlendingaeftirlitinu er heimilt að vísa útlendingi sem stundar atvinnu í andstöðu við ákvæði laga um atvinnuréttindi útlendinga úr landi. Slík ákvörðun hefur í för með sér brottvísun af öllu Schengen-svæðinu. Þess má geta að með tilkomu Schengen-samstarfsins er ekkert eftirlit með komu útlendinga sem koma frá löndum innan Schengen. Það er auðvelt fyrir útlendinga að koma hingað t.d. frá Svíþjóð eða Danmörku eða öðrum Schengen-löndum, og fara að vinna hér án nokkurra leyfa eða eftirlits.

Lögreglan í Kópavogi var spurð hvernig rannsókninni miðaði og svarið barst, dagsett í dag:

,,Vegna munnlegrar fyrirspurnar í dag frá fulltrúa félagsmálaráðherra skal eftirfarandi staðfest: Þann 5. nóvember sl. barst rannsóknardeild lögreglunnar í Kópavogi ábending frá Útlendingaeftirlitinu um að á vinnustað einum í Kópavogi kynnu að vera erlendir ríkisborgarar við störf án þess að hafa atvinnuleyfi. Ábending þessi var könnuð og þann 7. nóvember fóru lögreglumenn á vinnustað þennan og handtóku þar níu menn sem reyndust allir vera frá Litháen og hafði enginn þeirra atvinnuleyfi hér á landi. Þeir voru yfirheyrðir en síðan látnir lausir. Rannsókn þessa máls er ekki lokið og er því ekki hægt að skýra nánar frá stöðu þess eða niðurstöðu rannsóknar.``

Þegar við urðum áskynja um þessa atburði í félmrn. skrifaði ég Vinnueftirliti ríkisins 9. nóv. sl. svohljóðandi bréf:

,,Félagsmálaráðuneytið fer þess á leit við Vinnueftirlit ríkisins að starfsmenn þess í eftirlitsferðum sínum á vinnustaði kanni meðal starfsmanna hvort atvinnurekendur hafi gert þeim grein fyrir slysa- og sjúkdómahættu sem kann að vera bundin við starf þeirra. Á þetta ekki síst við um erlenda starfsmenn sem starfa hér á landi tímabundið þar sem jafnframt þarf að ganga úr skugga um að þeir séu sjúkra- og slysatryggðir. Að öðrum kosti er öryggi þeirra ekki tryggt með viðunandi hætti, sérstaklega þeirra sem sinna störfum er fela í sér töluverða slysahættu. Verði starfsmenn Vinnueftirlits ríkisins þess áskynja að lög og reglugerðir um dvalar- og atvinnuleyfi erlendra ríkisborgara séu ekki virtar ber þeim að tilkynna slíkt til Útlendingaeftirlitsins og/eða viðkomandi lögreglu.``

Ég hef einnig efnt til fundar með fyrirsvarsmönnum Alþýðusambands Íslands og óskað eftir að verkalýðshreyfingin vaktaði það hvort einhvers staðar væri grunur um erlenda starfsmenn sem væru leyfislausir eða byggju við illan aðbúnað.