Erlent vinnuafl

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 13:52:43 (1467)

2001-11-13 13:52:43# 127. lþ. 27.94 fundur 134#B erlent vinnuafl# (umræður utan dagskrár), ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[13:52]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil gera tvær hliðar þessa máls að umtalsefni. Í fyrsta lagi er það óþolandi gagnvart því fólki sem hér kemur til starfa að ekki skuli farið að leikreglum íslensks samfélags varðandi launa- og tryggingamál. Í öðru lagi er það sú óréttláta samkeppnisstaða þeirra fyrirtækja sem stunda það að ráða til sín vinnuafl sem ekki nýtur fullra réttinda eins og þau gerast á íslenskum vinnumarkaði.

Við Íslendingar leggjum mikið á okkur til að halda uppi velferðarsamfélagi sem við erum stolt af. Við viljum að þeir sem koma hingað til starfa geti treyst því að þeir búi við sama rétt og aðrir landsmenn. Glæpastarfsemi í sambandi við ráðningu á erlendu vinnuafli á ekki að líðast. Ekki er einungis hættan á að ekki sé greitt eftir umsömdum launatöxtum heldur ekki síður að ekki eru til staðar t.d. slysatryggingar, hvað þá aðrar tryggingar gagnvart fólkinu. Það er fullkomlega ólíðandi að svo sé.

Í samkeppnisumhverfi sem ríkir hér á landi er það fullkomlega ólíðandi að sum fyrirtæki komist upp með að misbjóða starfsfólki sínu hvort sem er erlendu eða íslensku og vera þar með betri samkeppnisstöðu gagnvart öðrum fyrirtækjum á markaðnum. Ekki á að líða að slík fyrirtæki stundi undirboð og hafi betri stöðu t.d. á útboðsmarkaði. Vonandi er það dæmi sem hér hefur orðið tilefni þessarar umræðu og kom upp fyrir helgi einsdæmi þó að grunur leiki á um að svo sé ekki. Flest íslensk fyrirtæki eru heiðarleg og standa eðlilega að málum gagnvart umsóknum á atvinnuleyfum og starfsfólki sínu en við getum aldrei búist við því að ná utan um öll þau fyrirtæki sem ætla sér að stunda óheiðarlega starfsemi og þar verðum við að beita öðrum reglum og lögreglueftirliti ef þess þarf með. Að öðru leyti geta auðvitað margir aðrir komið að því að hafa eftirlit þar, m.a. verkalýðsfélög og Samtök atvinnurekenda.