Erlent vinnuafl

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 14:06:30 (1473)

2001-11-13 14:06:30# 127. lþ. 27.94 fundur 134#B erlent vinnuafl# (umræður utan dagskrár), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[14:06]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Það mál sem hér er í brennidepli vekur enn á ný athygli á nauðsyn þess að mótuð sé heildstæð stefna í málefnum útlendinga sem setjast að hér á landi og málefnum þeirra fundinn einn staður í kerfinu. Slík stefna og lagasetning þarf að fyrirbyggja að hægt sé að ganga eins freklega á rétt erlends starfsfólks og dæmin sanna. Eins og staðan er í dag virðast yfirvöld vanbúin til þess að takast á við vandann jafnvel þótt grunsemdir vakni um innflutning atvinnurekenda á vinnuafli eftir ólöglegum leiðum. Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að það var frekar fátt um svör hjá hæstv. félmrh., og við vitum sem er að frv. sem er núna til umfjöllunar í félmn. svarar heldur ekki þeim spurningum sem hér er verið að spyrja.

Haft hefur verið eftir forstjóra Útlendingaeftirlitsins í fjölmiðlum að grunur leiki á að innflutningur á ólöglegu vinnuafli hingað til lands standi í nánum tengslum við skipulagða brotastarfsemi á alþjóðavísu.

Þetta minnir reyndar, herra forseti, á aðra umræðu sem fyrr hefur farið fram hér á hinu háa Alþingi um tengsl við alþjóðlega brotastarfsemi og ég velti því fyrir mér hvers vegna það sé einatt svo hér á landi að menn vakni upp við vondan draum þegar allt er komið í óefni.

Það liggur fyrir að mjög mikil eftirspurn eftir erlendu vinnuafli hefur verið hér á landi á síðustu árum. En á meðan atvinnuleyfin eru á ábyrgð vinnuveitenda eins og hér er hafa atvinnurekendur öll ráð útlendinganna sem hér eru ráðnir til vinnu í hendi sér. Getur það talist eðlilegt fyrirkomulag, herra forseti? Vandinn er ekki útlendingarnir. Vandinn er þeir atvinnurekendur sem misnota aðstöðu sína, þeir sem brjóta lögin. Sá er vandinn sem við erum að ræða hér í dag, herra forseti.