Loftferðir

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 14:54:37 (1479)

2001-11-13 14:54:37# 127. lþ. 27.12 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[14:54]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. þm. sem hafa tekið til máls um frv. fyrir þeirra innlegg. Hér hafa komið fram nokkrar fyrirspurnir sem ég vildi gera að umtalsefni.

Fyrst vil ég aðeins nefna að frv., eins og ég gat um í framsöguræðu minni, er að sjálfsögðu flutt til að gera margs konar breytingar á löggjöfinni sem leitt gætu til þess að flugöryggismálin og framkvæmd þeirra í landinu yrðu traustari. Það er auðvitað tilgangurinn. Þær leiðir sem við höfum til þess eru að sjálfsögðu að læra með ýmsum hætti af reynslunni, þó hún sé oft dýrkeypt. Þar fyrir utan þurfum við, bæði flugmálayfirvöld og ráðuneyti hverju sinni, að vera vel á verði. Ég undirstrikaði það rækilega í ræðu minni. Gera þarf þær breytingar á löggjöf og framkvæmd mála sem gætu leitt til betri vinnubragða, bæði hjá flugrekendum og opinberum aðilum.

Hins vegar ber á það að líta að við höfum m.a. rannsóknarnefnd flugslysa til þess að rannsaka flugslys og atvik sem verða hverju sinni. Rannsóknarnefnd flugslysa er m.a. ætlað það mikilsverða hlutverk að gera tillögur til úrbóta og það hefur hún gert.

Hv. þm. Kristján Möller nefndi alveg sérstaklega og fór yfir og velti fyrir sér hvort það þyrfti e.t.v. að aðskilja betur en gert er, annars vegar vinnu rannsóknarnefndar og hins vegar starf Flugmálastjórnar. Nú er það svo að það er skýrt tekið fram í lögum um rannsóknarnefnd flugslysa að hún starfar sjálfstætt og henni er ætlað að starfa óháð yfirvöldum, flugrekendum og öllum öðrum sem um þessi mál fjalla. Auðvitað er mjög mikilvægt að ganga svo frá hnútum að rannsóknarnefndin sé óháð. M.a. hefur það nokkuð komið til umræðu í þinginu, þegar gerðar voru kröfur um það af hv. þm. að ráðherra beitti sér gagnvart rannsóknarnefndinni. Ég hef dregið það mjög skýrt fram að rannsóknarnefndin starfar sjálfstætt og það er ekki á valdi ráðherrans að hafa bein afskipti af rannsókn flugslysa. Þetta er alveg nauðsynlegt að taka skýrt fram.

Hins vegar er það svo að það kann vel að vera að það þurfi að breyta lögum um rannsóknarnefnd flugslysa. Það kemur þá til okkar kasta síðar, m.a. í þá átt sem fram kom í athugasemdum og ábendingum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar þegar hún gerði athugun á starfi og vinnubrögðum nefndarinnar. Ég mun ekki hafa fleiri orð um það en vildi aðeins að þessu gefna tilefni undirstrika þetta sérstaklega.

Hv. þm. Kristján Möller nefndi einnig að e.t.v. veigruðu flugmenn sér við að koma fram og gera grein fyrir aðstæðum af ótta við refsivönd. Það er auðvitað hluti af verkefnum rannsóknarnefndarinnar. Hún hefur í raun afskaplega sterka stöðu til að draga fram þessi atriði frá flugmönnum jafnt sem öðrum sem að flugslysum og flugatvikum koma í þeim tilgangi að læra af reynslunni. Þess vegna er ekki gert ráð fyrir því að gögn rannsóknarnefndar flugslysa séu innlegg í kröfu fyrir dómstólum eða vegna ákæru. Það er eitt af grundvallaratriðum flugslysarannsóknanna, að þannig sé staðið að málum að reynt sé að tryggja að hið rétta og sanna komi fram. Það skiptir mjög miklu máli.

[15:00]

Hv. þm. nefndi sérstaklega það sem fram kemur í 16. gr. frv. og varðar 84. gr. loftferðalaganna. Í 16. gr. er verið að styrkja og efla þær heimildir sem Flugmálastjórn hefur en í henni segir, með leyfi forseta:

,,Flugmálastjórn Íslands getur gefið út rekstrarfyrirmæli varðandi einstaka rekstrarþætti hjá flugrekendum og öðrum þeim aðilum sem ber að starfa samkvæmt leyfi útgefnu af stofnuninni. Slík fyrirmæli geta þó einnig varðað reksturinn í heild. Rekstrarfyrirmæli geta lotið að því að banna tiltekna starfrækslu, binda hana takmörkunum eða gera hana háða því að tiltekin skilyrði sem stofnunin setur séu uppfyllt í þágu aukins flugöryggis. Rekstrarfyrirmæli skulu greina ástæðu fyrir útgáfu þeirra, gildissvið og gildistíma og þær ráðstafanir sem hlutaðeigandi rekstraraðila ber að viðhafa.

Brjóti leyfishafi lagaboð, önnur fyrirmæli um starfsemina, skilyrði leyfis eða reynist hann ófær um að reka starfsemina samkvæmt þeim fyrirmælum sem um hana gilda skal Flugmálastjórn Íslands svipta hann leyfi að nokkru leyti eða öllu, eftir mati stofnunarinnar á aðstæðum. Leyfissvipting að hluta skal þá varða nánar afmarkaða þætti í starfi hlutaðeigandi leyfishafa, til að mynda tiltekið loftfar eða tiltekna viðhaldsstöð. Sviptingin skal í fyrstu vera til bráðabirgða meðan mál er rannsakað með tilliti til þess hvort efni séu til endanlegrar leyfissviptingar. Bráðabirgðasviptingunni skal markaður tími.``

Í greinargerðinni er farið yfir þetta og það skýrt nánar. Hv. þm. spurðist fyrir um það hvort vitnað væri í þessu sambandi til einhverra tiltekinna atburða vegna þess að hér er reynt að herða möguleika Flugmálastjórnar til aðgerða. Það er vegna þess að, eins og fram kemur í frv., talið er að það hafi skort.

Bara til þess að upplýsa hvað hér er um að ræða komu á árunum 1995 og 1996 upp þrjú mál þar sem Flugmálastjórn gerði athugasemdir og það endaði með ákæru. Það var sýknað í einu málinu og sakfellt í öðru en refsingar voru mjög vægar. Þarna var um að ræða lágflug, snertilendingar og vatnalendingar. Mat Flugmálastjórnar var að þarna skorti skýrari og afdráttarlausari heimildir, og verið er að vitna til þessara mála þegar fjallað er um þetta í greinargerð frv. Þetta vildi ég nefna hér vegna fyrirspurnar hv. þm.

Hv. þm. Kristján Möller og reyndar hv. þm. Jón Bjarnason einnig nefndu hér fjármálahlið frv. og gerðu lítið úr því að verið væri að auka fjármuni til flugöryggismálanna --- á kostnað annarra framkvæmda var nefnt, og það er rétt. Við gerum ráð fyrir því að auka fjármuni flugöryggissviðsins um 30 millj. á næsta ári, sem auðvitað skiptir heilmiklu máli, og það er gert innan þess ramma flugmálaáætlunar sem fyrir liggur.

Af ýmsu er að taka í flugmálaáætlun og auðvitað er þar forgangsraðað. Með þessari tilfærslu erum við að forgangsraða með öðrum hætti en áður hefur verið, m.a. vegna þess að við erum með þessu frv. og öðrum aðgerðum að hraða gildistöku JAR-OPS reglnanna hvað varðar minni flugvélar en gert hafði verið ráð fyrir áður. Og við metum það svo að nauðsynlegt sé að herða á og auka þessa vinnu flugöryggissviðsins, eftirlitsvinnu, og það mun þá væntanlega koma niður á m.a. tilteknum byggingarframkvæmdum sem voru fyrirhugaðar. Ég þori að fullyrða að það er ekki á kostnað flugöryggisþátta heldur á kostnað þess að e.t.v. dregur eitthvað örlítið úr þjónustu, og starfsaðstaða á flugvöllum verður ekki strax sú sem verður í fyllingu tímans.

Við viljum með þessum áformum, bæði í fjárlögum og fjáraukalögum og með þessu frv., leggja ríka áherslu á flugöryggisþættina og að skapa flugöryggissviði Flugmálastjórnar alla þá möguleika sem við getum til þess að vinna sem best að málum.

Hv. þm. nefndi að hann teldi að hv. samgn. gæti ekki lokið starfi sínu á þessu þingi, og mér þykir það miður. Það eru vond skilaboð og ég leyfi mér að efast fullkomlega um það. Ég tel afar mikilvægt að þetta frv. verði afgreitt fyrir jól, og legg á það mjög ríka og mikla áherslu.

Við getum auðvitað haldið áfram að vinna að þessum málum og kalla fram sérfræðinga okkur til halds og trausts en ég tel að við getum ekki beðið með afgreiðslu þessa frv. þangað til lögreglurannsókn á viðkomandi flugslysi er lokið eða að annarri tiltekinni rannsókn erlendra aðila ljúki. Ef þær rannsóknir leiða til þess að gera þurfi einhverjar aðrar breytingar þarf auðvitað að taka á því þegar þar að kemur en ég tel að afgreiðslu þessa frv. eigi að ljúka og að samgn. hafi ekki yfir sér þau verkefni um þessar mundir að hún geti ekki lagst í mjög öfluga og góða vinnu við þetta mál. Þess utan veit ég að samgöngunefndarmenn hafa mjög mikið hugsað um þessi mál og rætt þau að undanförnu, og ættu þess vegna að vera betur í stakk búnir til þess að takast á við verkefnið. Þannig að ég legg mikla áherslu á að hraða vinnunni.

Spurt var hvort þessar auknu kröfur gagnvart flugvöllum og flugstöðvum gætu leitt til þess að einhverjum flugvöllum yrði lokað. Ég þori ekkert að fullyrða um það en á síður von á því vegna þess að mjög víða er verið að vinna að endurbótum á grundvelli flugmálaáætlunar, t.d. hérna í Reykjavík. Reykjavíkurflugvöllur er mikið breyttur og bættur, og allt í þágu flugöryggis, bæði hvað varðar flugbrautirnar og aðflugsbúnað allan, þannig að ég tel að það sé allt á mjög góðum vegi.

Þannig tel ég að að sjálfsögðu þurfi ýmislegt að lagfæra --- það fer ekkert á milli mála --- á grundvelli hertra krafna og reglna og að því þurfum við að vinna.

Það er alveg ljóst að kostnaður mun eitthvað aukast hjá flugrekendum en það eru m.a. þættir sem þarf að taka til meðferðar og við getum ekki slegið af kröfum af þeirri ástæðu.