Loftferðir

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 15:10:04 (1480)

2001-11-13 15:10:04# 127. lþ. 27.12 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[15:10]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svör við þeim spurningum sem ég lagði fram en vil taka skýrt fram vegna síðustu orða hans, að þetta hefði töluverðan kostnað í för með sér fyrir flugrekendur en samt sem áður mundum við ekki slá af flugöryggi, að ég tek heils hugar undir þau. En ég spurði út í þetta vegna þess að við vitum hvernig rekstrarskilyrði þessara flugfélaga er í dag. Þau berjast í bökkum. Og fjárhagslegur grundvöllur er nánast enginn. Menn eru að reka þetta með því að ganga á hlutafé o.s.frv. Ég sagði þetta eingöngu og spurði vegna þess að ég tel að sú staða gæti komið upp að við yrðum að gefa eftir í ýmsum gjöldum og sköttum sem við leggjum á innlenda flugrekendur sem eru að sinna áætlunar- og sjúkraflugi og öðru hér á landi. Þetta vildi ég að kæmi skýrt fram.

Það er sannarlega rétt að öll slík framþróun sem lýtur að öryggismálum, upptaka JAR-OPS reglnanna og annað, hefur auðvitað mikinn kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð, fyrir flugrekendur og allt það. Þetta öryggi kostar mikið. Og þess vegna segi ég líka að mér finnst ekki mikill bragur á því að teknar séu 30 millj. af framkvæmdum við flugvelli til þess að færa til Flugmálastjórnar til að sinna þessum öryggisþætti. Ég hefði talið að þarna þyrftu a.m.k. að koma til nýjar 30 millj. Og ég nefni aðeins í sömu andránni það sem snýr að öðru öryggi, þ.e. umferðaröryggisáætlun, sem umferðarþing hefur fjallað um og á að gera til næstu tólf ára, en hefur ekki litið dagsins ljós enn þá hér í þinginu, er ekki farið að ræða, og hæstv. dómsmrh. hefur boðað að ætti að ræða á vorþingi. Ég leyfi mér að efast um að hægt verði að framfylgja áætlun samkvæmt því mikla góða plaggi sem búið er að leggja mikla vinnu í, og eingöngu vegna peningaskorts. Við vitum það. Öll þessi atriði kosta fullt af peningum og peningar þurfa að fylgja með til þess að úr verði bætt. Það er nákvæmlega eins með frv. sem við erum hér að ræða. Þetta vildi ég, herra forseti, að kæmi skýrt fram.

Ég þakka líka það svar sem ég fékk hér um að rannsóknarnefnd flugslysa væri aðskilin frá Flugmálastjórn og ég hef heyrt lýsingu á því frá ágætum starfsmanni samgrn. um hvernig þetta var skilið frá vegna krafna frá hinu Evrópska efnahagssvæði. Ég segi hins vegar, og það spilar inn í þegar ég var að ímynda mér að okkur mundi ekki takast að afgreiða þetta fyrir jól, að ég vona svo sannarlega að það takist og skal leggja mitt af mörkum til þess. En ég verð að segja alveg eins og er að við höfum barist hér í því, fulltrúar Samfylkingarinnar, í ansi langan tíma að flugslysanefnd verði kölluð á fund samgn. til að ræða flugöryggismál á Íslandi. Auðvitað er það í framhaldi af skýrslunni um flugslysið í Skerjafirði. Auðvitað blandast það inn vegna þess að flugslysanefnd gerir líka ákveðnar tillögur um úrbætur. Og auðvitað er eðlilegt að hv. samgn. eigi að geta rætt við flugslysanefnd og fengið ábendingar, átt í skoðanaskiptum og þess háttar. Ég hef lesið þær skýrslur sem þar komu fram út af þessu hörmulega slysi.

Ég er ekki sérfræðingur í flugmálum. Ég er hins vegar áhugamaður um flugöryggismál og ég hef leitað mér upplýsinga, talað við flugmenn og annað, og flugmenn hafa fært ýmislegt af þessu í tal við mig sem nefndarmann. Þess vegna tel ég afar mikilvægt að hv. samgn. geti fengið flugslysanefnd á fund sinn til þess að ræða þetta frv. þar sem auðvitað blandast við skýrslur um þetta hörmulega flugslys. Auðvitað blandast það þar inn í vegna þess að þar eru dæmi tiltekin.

[15:15]

Ég verð að segja alveg eins og er, herra forseti, að því miður verður samgn. ekki ætlaður mikill tími til að fara yfir þetta mikla frv. sem er mjög flókið, vegna þess að þetta er náttúrlega bara fyrir flugtæknifræðinga að fjalla um. Við þurfum auðvitað að draga lærdóm af því sem þeir segja okkur og ráðleggja okkur. Það eru nú ekki eftir margir þingfundadagar, fjórtán dagar taldist mér til og eftir er 2. og 3. umræða um fjárlög, umræða um utanríkismál, nefndafundir o.s.frv. Það hefði nú verið betri bragur á því að leggja frv. fyrr fram. Við höfum ekkert verið í neinum stórmálum í samgn. það sem liðið er frá því að þing kom saman 1. október. Við hefðum getað verið búin að vinna mikið í þessu máli. En ég tek skýrt fram að ég ætla ekki að leggjast í það að tefja þetta mál, alls ekki. En ég vil að það fái vandlega umfjöllun í samgn. og að ekki verði farið í neinum hraðakstri þar í gegn eins og ýmislegt sem við höfum verið að ræða í samgn. Nægir þar að nefna sölu á Landssímanum á síðasta ári sem við urðum að taka með hraðferð, express-ferð í gegnum samgn.

Það sem hæstv. samgrh. sagði er einmitt grundvallaratriði í þessum málum, þ.e. við þurfum að læra af reynslunni. Það er nefnilega málið. Við þurfum að fá það inn sem okkur hefur verið bent á að betur mætti fara eins og hæstv. samgrh. er að beita sér fyrir með framlagningu þessa frv.

Herra forseti. Vegna spurningar minnar um ákvæði 84. gr. þar sem sett eru inn sterkari ákvæði fyrir Flugmálastjórn þannig að hún verði ekki gerð afturreka frá dómstólum með það mál sem ég spurði hér út í þá vil ég taka fram að á fund samgrn. kom flugmálastjóri og Pétur Maack sem vinnur að flugöryggismálum. Þeir tóku þetta skýrt fram á þeim fundi, þ.e. þeir tóku þetta dæmi um snertilendinguna. Auðvitað er ekki gott ef dómstólar treysta sér ekki til að taka á því máli vegna þess að ekki sé heimild fyrir því og menn reknir til baka. Það er auðvitað ekki nógu gott. Þetta atriði er því að sjálfsögðu til bóta í frv., samanber það sem ég nefndi áðan um lögreglu sem getur stoppað bíl á götu og tekið af honum númerin þannig að hann verður ekki hreyfður öðruvísi en að fara með dráttarbíl.

Herra forseti. Ég held að ég hafi nú farið í gegnum það sem ég vildi bæta við það sem ég sagði í fyrri ræðum mínum um þetta mál. En ég segi bara: Við skulum vona að okkur takist að afgreiða þetta mál fyrir jól. Það er að sjálfsögðu afar mikilvægt. En ég gagnrýni að það skuli ekki hafa komið fyrr fram.

Samgöngunefnd þarf að senda þetta til umsagnar. Við þekkjum það frá fyrri málum sem við höfum rætt, t.d. flugleiðsögugjöldunum, að umsagnir frá geta verið miklar og ítarlegar sem betur fer. Það eru miklir tæknimenn og miklir fræðingar sem starfa við þetta hér hjá okkur á Íslandi. Við þurfum að sjálfsögðu líka að kalla til okkar fulltrúa frá flugfélögum sem sjá um innanlandsflug vegna þess að við þurfum auðvitað að fá mjög góða lýsingu hjá þeim á því að þessar sjálfsögðu öryggisreglur sem við erum að taka upp og eru öllum til gagns munu hafa mikil fjárútlát í för með sér fyrir ríkissjóð og flugrekendur.

Við höfum verið að ræða hér um flugvellina þar sem 30 millj. eru teknar frá. Það getur vel verið að út úr þessu komi það að við munum loka nokkrum flugvöllum eða nokkrum flugstöðvum, sjúkraflugvöllum. Þá verður auðvitað að bregðast við því þannig. Ekki gengur að loka þessu og skapa hættur eða erfiðleika á öðrum sviðum.