Loftferðir

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 15:19:05 (1481)

2001-11-13 15:19:05# 127. lþ. 27.12 fundur 252. mál: #A loftferðir# (eftirlitsheimildir Flugmálastjórnar, flugvernd, gjöld o.fl.) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[15:19]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst vil ég nefna að við undirbúning þessa frv. var leitað umsagna frá flugfélögunum og fleirum þannig að frv. er mjög vel undirbúið.

Ég tel að samgn. ætti ekki að vera neitt að vanbúnaði að taka rækilega til hendi við að ljúka þessu á sem skemmstum tíma. Varðandi það að nefndin þurfi að fá til sín t.d. rannsóknarnefnd flugslysa þá get ég að sjálfsögðu ekki skipað henni eitt né neitt. En það er alveg augljóst að aðili eins og rannsóknarnefnd flugslysa hlýtur að geta komið til samgn. til þess að fara yfir og fjalla um málefni eins og breytingar á þessari löggjöf.

Varðandi það atriði að flugfélögin séu illa sett þá er það auðvitað rétt. Vandræði hafa verið í rekstri flugfélaga. Ekki hefur það nú batnað við síðustu atburði. En hvað varðar innanlandsflugið þá er staðan gjörbreytt vegna aðgerða stjórnvalda. Hvers vegna? Jú, vegna þess að við höfum boðið út flugleiðir. Við höfum boðið út bæði áætlunarflugleiðirnar, sem er beinn ríkisstyrkur sem ekki var áður sem bætir stöðu flugfélaganna, og við höfum boðið út sjúkraflutningana í tengslum m.a. við áætlunarflugleiðirnar, sem er nýlunda. Það bætir stórlega sjúkraflutningaþjónustuna, breytir henni algerlega í grundvallaratriðum, skapar flugfélögunum auknar og tryggari tekjur vegna þessa og þar af leiðandi betri rekstrarstöðu. Síðan er það nýjast að við höfum ákveðið að bjóða út flugleiðina til Hornafjarðar sem á að bæta stöðu þess flugfélags sem hana fær vegna þess að flugfélögin hafa verið að reka þá flugleið með tapi.

Það er því staðreynd að með stefnu stjórnvalda og aðgerðum gagnvart innanlandsfluginu ætti staða flugfélaganna að verða miklu betri.