Loftferðir

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 16:03:06 (1490)

2001-11-13 16:03:06# 127. lþ. 27.13 fundur 32. mál: #A loftferðir# (leiðarfluggjöld) frv., Flm. KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[16:03]

Flm. (Kristján L. Möller) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir innlegg hans í þessa umræðu. Hann segir að þetta frv. sé óþarft vegna þess að búið sé að taka ákvörðun um að fella niður þetta gjald. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. samgrh., vegna þess að í frv. sem hann flutti áðan um loftferðir er ákvæði um að lög þessi öðlist þegar gildi þegar þau verða samþykkt: Er þá virkilega meiningin að rukka flugmiðaskattinn allt þetta ár? Ég get ekki séð að hæstv. samgrh. fái heimild til að hætta að innheimta leiðarflugsgjöldin á miðju ári eins og boðað var. Það er ekki.

Ég spyr hann því út í það og bið hann um að svara því hér á eftir: Hvenær er ætlunin að leiðarflugsgjaldið detti niður? Verður það með gildistöku laganna? Ég get ekki séð annað en að gert sé ráð fyrir að flugmiðaskatturinn tifi í dag. Í dag þarf að borga þessi gjöld fyrir flug frá Reykjavík til Akureyrar vegna þess að það eru engin ákvæði um að hætta við þau frá og með einhverjum tíma. Ég vona að hæstv. samgrh. styrki okkur í því í samgn. að taka gjaldið af.

Það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði, að við höfum sloppið vel við að styrkja almenningssamgöngur. Hins vegar leggjum við ótal skatta aðra á almenningssamgöngur. Við erum að tala um flugmiðaskattinn. Má ég nefna eitt dæmi, af því að við vorum að ræða um leigubílafrv. fyrir nokkrum dögum. Þar er ákvæði um að taka upp leigubílaskatt upp á 13 þús. kr., ný skattheimta. Gera menn sér grein fyrir því að leigubílstjórar borga virðisaukaskatt af gjaldmælum upp á næstum 2 þús. kr. á mánuði eða 24 þús. kr. á ári. Séu þetta 500 bílar þá eru leigubílstjórar að greiða um 13 millj. kr. í virðisaukaskatt á ári til samfélagsins vegna þess að menn hafa tekið upp nýja aðferð við að mæla kostnað við ferðina.