Loftferðir

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 16:05:20 (1491)

2001-11-13 16:05:20# 127. lþ. 27.13 fundur 32. mál: #A loftferðir# (leiðarfluggjöld) frv., samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[16:05]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það kemur alveg skýrt fram í frv. sem við ræddum áður, loftferðafrv., að þau lög, ef hv. þm. leggst ekki gegn því að afgreiða þau en hann var reyndar að tala um að hann gerði ekki ráð fyrir að þetta yrði afgreitt fyrr en eftir áramót, taka auðvitað gildi þegar þingið afgreiðir þau. Hins vegar kemur fram í greinargerð með frv. hvaða tekjur við gerum ráð fyrir að fá af þeirri breytingu. Skattalög eru ekki afturvirk með íþyngjandi hætti. Hins vegar er það svo að frv. og greinargerðin segja til um þessa skattheimtu á þessu ári en á næsta ári verður gjaldið ekki innheimt.

Umræðan um skattheimtu á leigubíla er mjög sérkennileg hjá hv. þingmönnum Samfylkingarinnar, sérstökum talsmönnum samneyslunnar. Ég kann því mjög illa þegar reynt er að gera úlfalda úr mýflugu. Í umræðunni um leigubílafrv. var skýrt tekið fram að við erum þar fyrst og fremst að innheimta kostnað sem fellur til vegna þess að verið er að úthluta takmörkuðum fjölda leyfa og samfélagið hefur ákveðinn kostnað af því. Þar er mjög góð grein gerð fyrir því hvernig hann verður til og hvernig hann er hugsaður. Ég vona að hv. þingmenn sameinist um að afgreiða það frv. fljótt og vel á þeim forsendum sem þar liggja fyrir.