Hönnun og merkingar hjólreiðabrauta

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 16:46:58 (1499)

2001-11-13 16:46:58# 127. lþ. 27.15 fundur 248. mál: #A hönnun og merkingar hjólreiðabrauta# þál., KF
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[16:46]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að sjá þessa þáltill. komna fram að nýju en hún fjallar um skipan nefndar um hönnun og merkingar hjólreiðabrauta.

Tillagan er dæmi um góð málefni sem koma til umræðu í þingsal og ná ekki fram að ganga og eru ítrekað endurflutt en efni hennar er slíkt að manni finnst að það ætti að vera frekar létt verk og löðurmannlegt að afgreiða hana og koma henni í verk. Í tillögunni er gert ráð fyrir að samgrh. verði falið að skipa nefnd til að marka opinbera stefnu í málefnum hjólreiðamanna og stefnu um hönnun og merkingar hjólreiðarbrauta í þéttbýli og dreifbýli. Einnig er gert ráð fyrir að tekið verði tillit til hjólreiðamanna við hönnun nýrra mannvirkja og stefnt að því að hjólreiðar verði raunhæfur kostur í samgöngumálum á Íslandi. Í þetta verk er ætlað að verja tæpu ári.

Ég ræddi þetta mál nokkuð þegar tillagan var síðast lögð fram. Ég vísa til þeirrar umræðu sem var allítarleg. Við vitum öll að hjólreiðamenn eiga fótum sínum fjör að launa, að geta bjargað sér á hjólafáknum og stundum við illan leik úr umferðinni. Það er vitað að hraðbrautir eru ekki ætlaðar fyrir hjólreiðamenn og einnig var það haft við orð við síðustu umræðu um þetta mál að það væri á ábyrgð sveitarfélaganna að gera hjólreiðarstíga meðfram hraðbrautum. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess í sjálfu sér en mér finnst a.m.k. löngu tímabært að þessi opinbera stefna verði mörkuð og henni komið í framkvæmd. Sí og æ er verið að hanna ný mannvirki þar sem reiðhjólið er ekki boðið velkomið og mér finnst það miður.

Fyrsti flm., Ísólfur Gylfi Pálmason, minntist áðan á samtökin ,,Car Free Cities`` og mér rennur alltaf blóðið til skyldunnar þegar kemur að þeim samtökum þar sem ég var formaður hjólreiðanefndar Reykjavíkur sem skilaði tillögum um hjólreiðar í Reykjavík, þegar Reykjavík gekk í samtökin ,,Car Free Cities`` árið 1994. Síðan er liðið á áttunda ár. Ýmislegt hefur auðvitað verið gert og ég ætla að gleðja hv. þm. með því að það eru grindur fyrir reiðhjól fyrir utan Ráðhús Reykjavíkur. Það var kannski ekki aleinasti árangur af hjólanefndarvinnu okkar á sínum tíma. Það hefur auðvitað ýmislegt verið tekið til greina en ekki nándar nærri nóg. Eins og menn vita sem ferðast hafa um höfuðborgir annars staðar, þá eru þar víða sérstakar hjólreiðabrautir, sérstök umferðarljós fyrir hjólreiðamenn sem gera ferðir þeirra mun öruggari og fækka slysum þar, með því að menn eru ekki að þvælast inn á milli bílanna.

Hjólaeign landsmanna er orðin það almenn að tveir af hverjum þremur eru taldir eiga reiðhjól. Það er einnig vitað að megnið af árinu, alla vega á þessu landshorni, er hægt að hjóla milli staða á nokkuð auðum götum og gangstéttum. Megnið af árinu er það svo.

Ég fullyrði að það mun ekki standa á umhvn. þingsins að afgreiða þetta mál. Ég vona okkar allra vegna að þetta verði í síðasta sinn sem þarf að flytja þessa tillögu og við munum sjá það á þessu þingi að hún verði afgreidd og henni komið í framkvæmd.