Hönnun og merkingar hjólreiðabrauta

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 16:59:18 (1502)

2001-11-13 16:59:18# 127. lþ. 27.15 fundur 248. mál: #A hönnun og merkingar hjólreiðabrauta# þál., GHall
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[16:59]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Þessi þáltill. er allrar athygli verð. Með hliðsjón af því að 40 millj. fara á ári til reiðvega hlýt ég að ætla að þetta mál eigi greiðan aðgang í gegnum þingið og fái viðunandi úrvinnslu. Hins vegar sé ég að flutningsmenn álykta um það að fela samgrh. að skipa nefnd til að vinna að framgangi þessa máls. Ég verð að segja að ég treysti Vegagerðinni vel til að vinna þetta verkefni. Við gætum örugglega stytt okkur verulega leið með því að sleppa nefndinni og setja þetta beint til Vegagerðarinnar. Við sjáum t.d. með reiðvegina að ekki voru kallaðir neinir hestamenn eða sérstakir aðilar til að fjalla um reiðvegina, ekki var skipuð nefnd til þess.

Hjólreiðar eru afar skemmtilegar og oft kemur ýmislegt skemmtilegt upp á í sambandi við þá íþrótt. Það eru ekki mörg ár síðan danskur pólitíkus bauð sig fram í kosningum og sóttist eftir stuðningi kjósenda og náði kjöri vegna loforða um að allir danskir þegnar í hans kjördæmi væru mundu búa við þann unað að hafa vindinn alltaf í bakið. Hann hlaut kosningu. Það er ekki nóg með að danskurinn sé mikill húmoristi heldur metur hann reiðhjólið mikils. Við getum lært mikið af því hvernig Danir nota þetta ágæta farartæki og eins og hér hefur komið fram er það bæði til gagns og gamans og líka ágætt til líkamsræktar.

Á nýliðnum landsfundi Sjálfstfl. voru samþykktar ágætar tillögur um samgöngumál og m.a. um að gert yrði sérstakt átak í merkingu hjólreiðabrauta í þéttbýli og á helstu ferðamannaleiðum. Það eru því margir aðilar sem vilja leggja þessu máli lið og er það vel. Ég vona að tillagan fái góða umfjöllun í hv. samgn., þar sem ég á sæti, og að nú verði tekið þannig á málum að hjólreiðamenn megi sæmilega vel við una.