Hönnun og merkingar hjólreiðabrauta

Þriðjudaginn 13. nóvember 2001, kl. 17:02:17 (1503)

2001-11-13 17:02:17# 127. lþ. 27.15 fundur 248. mál: #A hönnun og merkingar hjólreiðabrauta# þál., EKG
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 127. lþ.

[17:02]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Þegar mál fá einróma viðtökur hringja einhvers staðar nokkrar viðvörunarbjöllur. Það gerðist hjá mér þegar ég fór að hlusta á þessar umræður. Þegar mál eru rædd, kannski gagnrýnislítið, renna þau oft í gegn án þess að menn skoði á þeim allar hliðar. Þess vegna, virðulegi forseti, langaði mig aðeins til að koma inn í þessa umræðu þó að ég hafi ekki velt þessu mjög mikið fyrir mér.

Það rifjaðist hins vegar upp fyrir mér að tillaga svipaðrar ættar kom fram á þeim tíma sem ég var formaður samgn., og mig minnir að 1. flm. þess máls hafi verið hv. þáv. þm. Svavar Gestsson. Sú tillaga gekk út á, ef ég man rétt, að þessir hjólreiðastígar yrðu hluti af samgöngukerfinu og, eins og ég man málið, Vegagerðin hafði talsverðar athugasemdir við framsetningu málsins eins og það var a.m.k. kynnt á þeim tíma.

Nú skilst mér að við höfum samþykkt hér á Alþingi möguleika á því að ríkissjóður, Vegasjóður, komi að því að fjármagna hjólreiðastíga. Við erum oft og tíðum dálítið örlát á almannafé í ýmsum efnum og þegar upp koma mál sem enginn er á móti, eins og að efla hjólreiðar sem er auðvitað hluti af því að tileinka sér góða líkamsrækt og holla útiveru, bregðumst við auðvitað afskaplega vel við slíkum erindum. Út af fyrir sig mun ég ekki leggjast gegn þessari tillögu hérna enda felur hún fyrst og fremst í sér viðleitni til þess að marka ákveðna stefnu í máli sem auðvitað þarf að hafa einhverja skoðun á. Ég held hins vegar, virðulegi forseti, að menn verði að átta sig alveg á því hvert stefna skuli.

Í fyrsta lagi er hér talað um hjólreiðastíga, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Hvað eru menn að tala um í þessum efnum? Mig grunar að fyrsta kastið verði auðvitað áherslan á að leggja þessa hjólreiðastíga í þéttbýli vegna þess að þar er þörfin mest, þar er umferðin mest og erfiðast fyrir hjólandi vegfarendur að komast um. Við verðum að átta okkur á því að að öllum líkindum mun þetta þýða að fjárveitingarnar og fjármunirnir muni renna í þessa áttina og kannski ekkert nema gott um það að segja út af fyrir sig.

Í öðru lagi verða menn líka að átta sig á því hvert umfangið á að vera. Eftir því sem mér sýndist við fljótan yfirlestur áðan ganga lögin út á það að fjármögnunin á hjólreiðastígum skuli vera í höndum einstaklinga, félagasamtaka, fyrirtækja eða opinberra aðila þannig að málið er býsna opið. Það er út af fyrir sig ekki lögð nein lagaleg skylda á hið opinbera að taka upp fjárveitingar til þess að standa undir hjólreiðastígum en það er opnað á þá hugsun. Nú liggur sem sagt fyrir ágæt og athyglisverð tillaga frá hv. þm. sem felur í sér viðleitni til þess að styrkja málið enn og reyna að marka þessu einhverja braut.

Þess vegna, virðulegi forseti, held ég að það sé mjög mikilvægt, áður en Alþingi afgreiðir málið frá sér eftir að það hefur farið í gegnum samgn. Alþingis, að það liggi ljósar fyrir hver meining Alþingis er í þessum efnum. Mér finnst ekki hægt, virðulegi forseti, að Alþingi setji málið með þeim hætti inn til framkvæmdarvaldsins, það sé algerlega látið í hendur þess hvert skuli stefna. Það er auðvitað eðli málsins að ef framkvæmdarvaldinu er falið að skipa nefnd, og því fylgir engin frekari leiðsögn af hálfu Alþingis, er auðvitað búið að selja nefnd framkvæmdarvaldsins ákveðið sjálfdæmi í málinu. Þess vegna tel ég, virðulegi forseti, að ef menn ætla sér að afgreiða þetta mál verði Alþingi að hafa á því skoðun. Á t.d. að hugsa málið þannig að jöfnum höndum skuli leggja hjólreiðastíga í þéttbýli og dreifibýli? Í dreifbýli getur verið mikil þörf. Það er heldur alls ekki létt að hjóla t.d. á þjóðvegi 1 í mikilli umferð sem getur verið þar, og hraðri umferð þó að hún sé auðvitað ekki eins mikil og á þéttbýlisstöðunum. Í öðru lagi: Hvað með kostnaðinn? Eitthvað mun þetta kosta. Hvaða hugmyndir eru menn með í þeim efnum í ljósi þeirra laga sem gildandi eru þar sem gert er ráð fyrir því að það sé ekki einasta ríkið heldur ekki síður einstaklingar, fyrirtæki og félagasamtök sem eiga að standa straum af þessu? Er þá t.d. hugsun flutningsmanna að slíkir aðilar komi að því að kosta með einhverjum hætti þessa hjólreiðarstíga?

Virðulegi forseti. Ég veit að þetta mál er í öruggum höndum þegar það er komið til samgn. Alþingis, og ég veit að þar munu menn auðvitað velta þess máli miklu betur fyrir sér heldur en ég get gert hérna í þessari stuttu ræðu minni. En ég held að umfram allt verði Alþingi að hafa einhverja leiðsögn í þessu máli og fela það ekki eingöngu í hendurnar á framkvæmdarvaldinu. Þess vegna er erindi mitt hingað upp fyrst og fremst að árétta það að um leið og Alþingi lýsir með almennum orðum stuðningi við góðar hugmyndir, sem er út af fyrir sig hið þarfasta mál, verður Alþingi auðvitað líka að hafa einhverja skoðun á því hvert stefna skuli. Nefndir eru góðar. Þetta er auðvitað ein aðferð við það að varpa erfiðum verkefnum af sér, að fela þetta einhverjum nefndum, en ég hlýt að hvetja til þess að í samgn. verði reynt að hugsa málið betur og útskýra það þannig að samþykkt verði á Alþingi að nefndin sem verður væntanlega falið þetta verk fái ekki algjört sjálfdæmi um það hvert stefna skuli í máli sem Alþingi á að hafa skoðun á.