Matvælaeftirlit

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 13:45:14 (1507)

2001-11-14 13:45:14# 127. lþ. 29.1 fundur 152. mál: #A matvælaeftirlit# fsp. (til munnl.) frá forsrh., forsrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[13:45]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Vegna fyrirspurnar hv. þm. vil ég geta þess að í lok nóvember 1999 lagði umhvrh. til að nefnd forsrn. um opinbera eftirlitsstarfsemi fengi það verkefni að skoða fyrirkomulag matvælaeftirlits í samráði við hlutaðeigandi ráðuneyti og gera tillögu um framtíðarskipulag matvælaeftirlits hér á landi, skipulagi sem miðaðist að því að einfalda og bæta núverandi fyrirkomulag. Ríkisstjórnin féllst á þessa tillögu hæstv. umhvrh.

Nú hefur nefndin lokið þessu verkefni og skilað skýrslu til forsrh. og umhvrh. Það er meginniðurstaða nefndarinnar að núverandi fyrirkomulag matvælaeftirlits sé óviðunandi. Þar er tekið undir þau sjónarmið sem hv. þm. orðaði hér áðan, að eftirlitið samræmist ekki kröfum sem gera verður um skilvirka og hagkvæma stjórnsýslu til að tryggja mikilvæga hagsmuni þjóðarðinnar. Matvælaeftirlit hér á landi var ekki talið taka fullt tillit til þeirrar þróunar sem orðið hefði á undanförnum árum, varðandi tækni við framleiðslu matvæla, auknar kröfur neytenda um gæði matvæla og stöðu Íslands sem matvælaframleiðslulands á alþjóðamarkaði, enda komi um helmingur útflutningstekna þjóðarinnar frá sjávarútvegi.

Tillaga nefndarinnar er að sameina stjórnsýslueftirlit með matvælum innan eins ráðuneytis og einnar matvælaeftirlitsstofnunar sem undir það ráðuneyti mundi falla. Með því móti væri brugðist við þeim göllum sem á núverandi kerfi eru og hv. þm. rakti.

Í tillögu nefndarinnar, í skýrslu hennar er lagt til að verkefni gæðasviðs Fiskistofu, matvælasviðs Hollustuverndar, yfirdýralæknis, aðfangaeftirlits, plöntueftirlits og kjötskoðunar, ásamt því eftirliti með matvælum sem nú er á höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga verði sameinað í einni stofnun, Matvælastofu. Með þessu er stjórnsýsla málaflokksins færð á eitt stjórnsýslustig og kraftar allra þeirra sem vinna að matvælaeftirliti sameinaðir undir einni stjórn í sterkara faglegra umhverfi. Með þeim hætti ætti að fást heildstæðara eftirlit, markvissari vinnubrögð og aukin skilvirkni. Matvælastofa sem þannig væri upp byggð hefði einnig meiri burði til samstarfs við erlendar eftirlitsstofnanir á þessu sviði en núverandi fyrirkomulag gefur færi á. Nefndin lagði einnig til að við skipulag alls eftirlits á vegum stofnunarinnar yrði farið að lögum nr. 27/1999, um opinberar eftirlitsreglur og reglugerð nr. 812/1999, um eftirlitsreglur hins opinbera.

Svo ég svari seinni spurningunni þá hafa þessar tillögur verið til meðferðar í ríkisstjórninni. Það er ljóst að þær hafa mikinn stuðning þar. Það er ekki búið að taka endanlega ákvörðun um undir hvaða ráðuneyti matvælastofa mundi falla, en helst hafa þó sjónir manna beinst að sjútvrn. Hins vegar er ljóst að það þyrfti að fara fram ákveðin uppstokkun innan ráðuneyta í tilefni af samræmingu og tilflutningi af þessu tagi. Ég á von á því að ríkisstjórnin muni ljúka þessum verkefnum sínum fyrir áramót og kynna breytingar á lögum sem gera þarf um leið og þing kemur saman eftir áramótahlé.