Farþegaflutningar til og frá Íslandi

Miðvikudaginn 14. nóvember 2001, kl. 13:51:23 (1509)

2001-11-14 13:51:23# 127. lþ. 29.3 fundur 181. mál: #A farþegaflutningar til og frá Íslandi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi KF
[prenta uppsett í dálka] 29. fundur, 127. lþ.

[13:51]

Fyrirspyrjandi (Katrín Fjeldsted):

Herra forseti. Ég haf lagt fram fyrirspurn til hæstv. samgrh. um farþegaflutninga til og frá Íslandi og er hún svohljóðandi:

Telur ráðherra nauðsynlegt að boðið sé upp á reglulegar skipaferðir allan ársins hring fyrir ferðamenn til og frá landinu?

Ástæðan fyrir þessari fyrirspurn er fyrst og fremst öryggismál Íslendinga. Við höfum með tímanum orðið háðari því að ferðast milli landa með flugi. Það má segja að það hafi verið eðlileg þróun. Fólki liggur á, fljótt fljótt, sagði fuglinn. Með flugi hafa ferðir bæði verið tíðar og öruggar.

En skjótt skipast veður í lofti. Með því sem gerðist í Bandaríkjunum 11. sept. sl. opnast augu margra fyrir því hversu ofurseld íslensk þjóð er þessum flutningsmáta. Til að komast til og frá Íslandi höfum við haft flug. Ef flug riðlast, annaðhvort á alþjóðavettvangi, eitthvað kemur upp sem veldur því eða þá hér á landi þá erum við sjólukt þjóð. Mér finnst þetta áhyggjuefni. Alla vega finnst mér rétt að skoða hver sé þá skylda stjórnvalda til að sjá til þess að farþegaflutningar séu mögulegir milli landa.

Ég hafði samband við Eimskipafélag Íslands. Þar hafa einungis tvö skip, þ.e. Dettifoss og Goðafoss, möguleika á að taka greiðandi farþega meðferðis. Hvort þessara skipa er útbúið þannig að það getur tekið að hámarki þrjá farþega. Ástæðan er sú að öryggisbúnaður skipsins takmarkast við 17 manns hið mesta og áhöfnin er 13--14 manns. Því eru svona fá pláss fyrir farþega.

Ferjusiglingar eru til landsins. Þannig kemur Norræna til Seyðisfjarðar frá maímánuði fram í viku af september eða svo með erlenda ferðamenn fyrst og fremst og tekur Íslendinga sömuleiðis yfir til Danmerkur. En nú er að koma ný ferja sem mun verða fjórum sinnum stærri en sú sem fyrir er og maður veltir fyrir sér þeim möguleikum sem þar væru fyrir hendi, hvort slík ferja gæti að einhverju leyti komið til móts við --- sem ég held að verði vaxandi --- þarfir íslenskra farþega að fara siglandi milli landa.